Leikmenn Brentford lentu heldur óvænt undir á 21. mínútu er liðið tók á móti Leicester á Gtech Community vellinum í Brentford í dag. Faucundo Buonanotte kom boltanum þá í netið eftir stoðsendingu frá Jamie Vardy.
Yoane Wissa jafnaði hins vegar metin fyrir heimamenn fjórum mínútum síðar eftir undirbúning Kevin Schade, áður en Þjóðverjinn skoraði sjálfur eftir tæplega hálftíma leik.
Schade bætti svo öðru marki sínu, og þriðja marki heimamanna, við þegar komið var átta mínútur fram yfir venjulegan leiktíma í fyrri hálfleik og sá til þess að Brentford fór með 3-1 forystu inn í hálfleikshléið.
Þýski framherjinn var þó ekki hættur og fullkomnaði hann þrennu sína á 59. mínútu. Reyndist það síðasta mark leiksins og niðurstaðan því öruggur 4-1 sigur Brentford sem nú situr í áttunda sæti deildarinnar með 20 stig, tíu stigum meira en Leicester sem situr í 16. sæti.
How many is that today, @kevinschade_ 🔥🔥🔥 pic.twitter.com/u5XeaZq8ua
— Brentford FC (@BrentfordFC) November 30, 2024
Þá var einnig skoruð þrenna í leik Wolves og Bournemouth þar sem gestirnir unnu 4-2 sigur. Justin Kluivert kom gestunum í Bournemouth yfir strax á þriðju mínútu með marki úr vítaspyrnu áður en Jorgen Strand Larssen jafnaði metin fyrir Úlfanna tveimur mínútum síðar.
Milos Kerkez endurheimti forystu gestanna með marki á áttundu mínútu og á 18. mínútu skoraði Kluivert annað mark sitt úr vítaspyrnu eftir klaufalegt brot Jose Sá innan vítateigs.
Jorgen Stran Larssen minnkaði muninn fyrir heimamenn þegar um tuttugu mínútur voru til leiksloka, en fimm mínútum síðar fengu gestirnir sína þriðju vítaspyrnu. Justin Kluivert fór enn eina ferðina á punktinn og niðurstaðan varð sú sama og áður. Lokatölur 4-2, Bournamouth í vil.
Önnur úrslit
Crystal Palace 1-1 Newcastle
Nottingham Forest 1-0 Ipswich