Fótbolti

Musiala bjargaði stigi fyrir Bayern

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Jamal Musiala reyndist hetja Bayern.
Jamal Musiala reyndist hetja Bayern. Stuart Franklin/Getty Images

Jamal Musiala reyndist hetja Bayern München er hann tryggði liðinu 1-1 jafntefli gegn Dortmund í stórleik helgarinnar í þýska boltanum í kvöld.

 Þrátt fyrir nokkra yfirburði gestanna í Bayern voru það heimamenn í Dortmund sem náðu forystunni á 27. mínútu með marki frá Jamie Gittens.

Bæjarar urðu svo fyrir öðru áfalli sex mínútum síðar þegar markamaskínan Harry Kane þurfti að fara meiddur af velli.

Án síns helsta markaskorara héldu gestirnir í Bayern þó áfram að þjarma að heimamönnum. Það bar loksins árangur þegar aðeins um fimm mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma, en þá setti Jamal Musiala boltann í netið eftir stoðsendingu frá varamanninum Michael Olise.

Hvorugu liðinu tókst að kreista fram sigurmark og niðurstaðan varð því 1-1 jafntefli. Bayern trónir enn á toppi þýsku deildarinnar, nú með 30 stig eftir 12 leiki, tíu stigum meira en Dortmund sem situr í fimmta sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×