Heimir Örn Herbertsson, oddviti yfirkjörstjórnar í Reykjavíkurkjördæmi norður, staðfesti þetta við fréttastofu.
„Það atvikaðist einhvern veginn þannig að einn kjósandi lenti í því að glutra vegabréfi sínu ofan í kjörkassann. En það er svo sem ekkert stórmál. Það er á vísum stað að minnsta kosti,“ sagði Heimir.
Allt sem fer ofan í kjörkassann, kemur aftur upp úr honum
Óheppni kjósandinn getur ekki sótt vegabréfið fyrr en á morgun þegar talningu er lokið.
„Hann getur það ekki alveg strax, núna er það í læstum og innsigluðum kjörkassa,“ sagði Heimir og bætti við: „Viðkomandi getur nálgast þetta til okkar í síðasta lagi á morgun. Þetta verður allt geymt.“
Oft gerist það að fólk setji óboðna aðskotahluti ofan í kjörkassana en að sögn Heimis er minna af því en áður.
„Í gamla daga var það meira þannig að fólk væri að lauma einhverju með, pappírssnifsum og svoleiðis, með kjörseðlinum. Það er nú eiginlega alveg hætt en allt sem fór ofan í kjörkassann kemur aftur upp úr honum,“ sagði hann.