Innlent

Ljóst að þetta yrði brekka fyrir Fram­sókn

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Ásmundur og Willum voru ekki stressaðir þrátt fyrir stöðuna.
Ásmundur og Willum voru ekki stressaðir þrátt fyrir stöðuna.

Ásmundur Einar Daðason og Willum Þór Þórsson ráðherrar Framsóknar segjast ekki vera stressaðir þó einungis annar þeirra, Willum, mælist inni þegar þetta er skrifað og þá mælist formaður flokksins Sigurður Ingi Jóhannsson heldur ekki inni. Ásmundur Einar segist stoltur af sínum verkum en segir ljóst að uppbyggingarstarf bíði félaga sinna í Framsókn.

Þetta kom fram í kosningasjónvarpi Stöðvar 2 eftir að fyrstu tölur höfðu borist úr Kraganum, Norðausturkjördæmi og Suðurkjördæmi. Þar ræddi Kristín Ólafsdóttir fréttakona við þá í kosningavöku Framsóknar í Oche í Kringlunni. Ásmundur Einar segir það hafa verið alveg ljóst að þetta yrði brekka.

„Það hefur legið fyrir síðustu daga. Það er alveg ljóst að það er verið að hefna ríkisstjórnarflokkunum fyrir stjórnarsetuna undanfarið. Ég er ánægður að Willum er inni en það er ljóst að Framsókn, sama hver er í þeim hópi, þarf að fara í uppbyggingu eftir þetta,“ segir Ásmundur Einar.

Hann segist ekki stressaður þó hann mælist ekki inni. „Það er ekkert stress í mér, ég er ótrúlega stoltur af mínum störfum sem barnamálaráðherra,“ segir Ásmundur. Hann segir að verði hann ekki kosinn muni hann bara fara að gera eitthvað annað, það sem dragi hjarta hans áfram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×