Píratar hlutu þrjú prósent atkvæða í Alþingiskosningunum og þurrkast því út af þingi.
„Ég ætla að vera hreinskilin: Þetta eru mikil vonbrigði. Ég get talið upp alls konar atriði um íslenska kosningakerfið sem er ólýðræðislegt en ég nenni því ekki, og er of þreytt til þess. Það sem ég vil hins vegar segja er að Píratar þurfa klárlega að fara í innri endurskoðun og ákveða sína vegferð vandlega næstu 4 árin,“ skrifar Lenya Rún Taha Karim oddviti Pírata í Reykjavík norður á Facebook.
Hún segir grunngildi Pírata og aðhaldið sem þeir veiti hafa sjaldan verið jafn aðkallandi. Næstu ár muni fara í uppbyggingu flokksins. Hvernig sú uppbygging fari fram verði þó að koma í ljós.
„Ég er ekki búin að ákveða hvort ég ætli að taka þátt í þessari uppbyggingu sem þarf að eiga sér stað í Pírötum vilji hann eiga möguleika á að ná brautargengi í næstu kosningum, eða hvort ég láti verða af þeirri furðulegu þörf á að fara í doktorsnám fyrir þrítugt, eða hvort ég snúi aftur til starfa sem lögfræðingur. Mig langar að gera svo margt sjáið til, og ég er ennþá svo ung,“ segir í færslu Lenyu.