Erlent

Játar að hafa ekki afl til að taka aftur her­numdu svæðin

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Selenskí virðist á síðustu vikum og mánuðum vera að gefa aðeins eftir hvað varðar ítrustu markmið Úkraínu í stríðinu við Rússa.
Selenskí virðist á síðustu vikum og mánuðum vera að gefa aðeins eftir hvað varðar ítrustu markmið Úkraínu í stríðinu við Rússa.

Vólódímír Selenskí Úkraínuforseti virðist hafa gefið nokkuð eftir í þeirri afstöðu sinni að Úkraínumenn muni taka allt landsvæði aftur af Rússum með valdi en hann viðurkenndi í viðtali á dögunum að það væri sennilega ómöglegt.

„Her okkar skortir styrk til þess. Það er rétt,“ sagði Selenskí í samtali við japönsku fréttastofuna Kyodo News. „Við þurfum að finna diplómatíska lausn“.

Selenskí sagði viðræður hins vegar eingöngu geta átt sér stað þegar Úkraína stæði það styrkum fótum að Rússar veigruðu sér við því að ráðast aftur gegn landinu. Yfirráð Rússa ná nú yfir Krímskaga, sem þeir hernumdu árið 2014, og stórra svæði í Donetsk, Kherson, Luhansk og Zaporizhzhia.

Forsetinn hefur kallað eftir því að Joe Biden Bandaríkjaforseti sannfæri aðra leiðtoga aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins um að veita Úkraínu inngöngu en hugmyndir hafa verið uppi um að verndarsvæði Nató myndi aðeins ná yfir „frjáls svæði“ landsins og ekki þau sem Rússar hafa náð á sitt vald.

Samið yrði um þau.

Donald Trump, sem sver embættiseið sem forseti Bandaríkjanna í janúar, hefur sagt að hann muni leysa deiluna á fyrsta degi en John Bolton, fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafi Trump, gefur lítið fyrir það.

„Hann segist ætla á ná Selenskí og Pútín saman í herbergi og að þeir muni leysa deiluna á 24 klukkustundum. Gangi honum vel með það,“ sagði Bolton í viðtali við Sky News.

Þá sagði hann að menn ættu að taka hótanir Trump um að ganga úr Nató alvarlegar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×