Umboðsmaður Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi lagði fram beiðni daginn eftir Alþingiskosningar um að talið yrði upp á nýtt í kjördæminu. Þegar lokatölur úr kjördæminu bárust í hádeginu á sunnudag datt oddviti flokksins, Willum Þór Þórsson, úr jöfnunarþingsæti og formaður flokksins Sigurður Ingi Jóhannsson fór inn í hans stað.
Gestur Svavarsson, formaður yfirkjörstjórnar Suðvesturkjördæmis, hefur sagt að hann geti hvorki hafnað né samþykkt beiðnir um endurtalningu vegna breytinga á þingsköpum rétt fyrir kosningar.
Ásthildur Lóa Þórsdóttir, þingmaður Flokks fólksins og starfandi forseti Alþingis, segir það hins vegar ekki rétt.
„Misskilningurinn getur falist í því að þegar úthlutunarfundur Landskjörstjórnar er búinn, kæruferlinu lokið og Landskjörstjórn búin að gefa sína umsögn, þá ber forseta að skipa níu manna nefnd þingmanna til að undirbúa rannsókn á kosningu þingmanna og kjörgengi þeirra. En á þessu stigi er þetta á ábyrgð yfirkjörstjórna að skila réttum niðurstöðum til Landskjörstjórnar,“ segir Ásthildur Lóa.
Hún segir eðlilegt að endurtalning eigi sér stað.
„Ef það munar mjög litlu og verið er að óska eftir endurtalningu finnst mér ekkert óeðlilegt að hún eigi sér stað. Aðalmálið er að lýðræðislegur vilji kjósenda komi fram,“ segir Ásthildur Lóa.