Innlent

Fram­tíð Kristjáns Þórðar hjá RSÍ ræðst í janúar

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Kristján Þórður Snæbjarnarson er nýkjörinn þingmaður Samfylkingarinnar.
Kristján Þórður Snæbjarnarson er nýkjörinn þingmaður Samfylkingarinnar. Vísir

Kristján Þórður Snæbjarnarson, nýkjörinn þingmaður Samfylkingarinnar í Reykjavík og formaður Rafiðnaðarsambands Íslands er kominn í leyfi frá störfum hjá sambandinu fram í janúar. Boðað verður til aukaþings eftir áramót þar sem framtíð Kristján hjá sambandinu skýrist.

Óljóst hefur verið hvort Kristán Þórður gegni áfram hlutverki hjá RSÍ nú þegar hann er kjörinn þingmaður. Hann segir í samtali við Vísi að ákveðið hafi verið á miðstjórnarfundi sambandsins í gær að hann færi í leyfi frá formannsstörfum fram í janúar. Þá verði boðað til aukaþings hjá sambandinu til að fara yfir málin. Óljóst sé með dagsetningu.

„Mér líst bara vel á það. Það er mjög gott að fara yfir þetta og meta stöðuna, hvernig verður haldið áfram með þetta,“ segir Kristján Þórður.

Það sem skipti mestu máli sé að geta sinnt því sem þurfi að sinna. Hann útilokar ekki að starfa áfram sem formaður RSÍ samhliða þingmennsku.

„Ég útiloka ekkert í því. Það þarf bara að koma frá sambandinu hvernig það lítur á hlutina. Hvaða óskir koma þaðan.“

Samfylkingin stendur í stjórnarmyndunarviðræðum við Viðreisn og Flokk fólksins. Formenn flokkanna funda nú þriðja daginn í röð í viðræðunum.

„Mér líst vel á allt sem er verið að gera. Formaðurinn er með þetta verkefni í höndunum,“ segir Kristján Þórður. Hann geti ekki frekar tjáð sig um stöðu mála þar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×