Þetta segir Henry Alexander Henrysson, heimspekingur sem situr í Fagráði um velferð dýra, í samtali við fréttastofu um nýtt hvalveiðileyfi. Með uppljóstrun á Henry við hlerunarmálið á Edition-hóteli þar sem sonur Jóns Gunnarssonar var hleraður.
Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra og starfandi matvælaráðherra, ákvað í gær að gefa út leyfi til tveggja sjávarútvegsfyrirtækja af þeim fjórum sem sóttu um að veiða langreyði og hrefnu til fimm ára. Ákvörðunin hefur verið harðlega gagnrýnd af umhverfis- og dýravelferðarsamtökum.
Minnir á myndskeið sem grættu þingmenn
Starfshópurinn sem Henry vísar til var myndaður í febrúar. Hann rýnir til að mynda í lagaumgjörð hvalveiða, þ.m.t. alþjóðlegar skuldbindingar ríkisins, valdheimildir og skyldur stjórnvalda á þeim grundvelli. Hann var skipaður af Katrínu Jakobsdóttur, fyrrverandi forsætisráðherra.
Svandís Svavarsdóttir, fyrrverandi matvælaráðherra og formaður Vinstri grænna, gaf upprunalega ekki leyfi til hvalveiða á síðasta ári þegar hún var í ráðuneytinu og tók þá ákvörðun á grundvelli sjónarmiða um dýravelferð. Henry segir það brýnt að svo stöddu að horfa til baka og rifja upp eftirlitsskýrslu Matvælastofnunar sem hafi sett umrætt mál af stað á sínum tíma.
„Skýrslan kom svolítið seint fram vissulega. Þar kom ýmislegt fram og ég minni á það að það var verið sýna myndbönd frá þessari eftirlitsskýrslu sem voru teknar við veiðarnar 2022. Ég meina þingmenn gengu grátandi út úr herberginu sem fengu að sjá þetta.“
Ömöguleg í nútíma samfélagi
Henry segir því mikilvægt að hefja umræðu um velferðarsjónarmið í kringum hvalveiðarnar. Hann segir það hafa farið forgörðum í umræðu um formsatriði undanfarið.
Stangast lög um hvalveiðar við lög um dýravelferð?
„Já að mínum dómi gera þau það. Lögin eru eldgömul, það kemur alltaf berlega í ljós alveg reglulega. Álit Umboðsmanns Alþingis sem kom út hérna á sínum tíma lýsti því hvernig ráðherra á bágt með að stjórna veiðunum með reglugerðum vegna þess að nútímaleg sjónarmið geta ekki verið höfð til hliðsjónar við útgáfu þessarar reglugerðar. Ég held að það hljóti að vera fyrsta verk nýrrar ríkisstjórnar og þingsins að fella þessi lög úr gildi því það er ómögulegt að hafa þau í gildi í nútíma samfélagi.“