Enn einn milliríkjafundur á vegum loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna – að þessu sinni í Baku í Azerbaijan nú í nóvember – skilaði litlum sem engum árangri. Það er jafnframt greinilegt að áhugi fjölmiðla heimsins á þessum fundum fer áfram mjög dvínandi, enda kemur aftur og aftur í ljós að þeir breyta engu sem máli skiptir til að minnka losun gróðurhúsalofttegunda og stöðva hlýnun jarðar. Á hinn bóginn eykst losun í heiminum enda vex notkun kola, olíu og gass.*
Loftslagsmál eru í grunninn alþjóðamál enda virða gróðurhúsalofttegundir auðvitað ekki landamæli. Loftslagsmál eru jafnframt innanlandsmál af því að á þeim vettvangi þarf að taka ákvarðanir sem nauðsynlegar eru svo árangur náist á alþjóðavettvangi.
Loftslagsmál hafa því lotið lögmálum alþjóðakerfisins þá örfáu áratugi sem þau hafa verið viðfangsefni alþjóðamála. Kerfið er hins vegar þannig gert að afar torvelt er að ná árangri þegar kostnaður er mikill, hagsmunir ólíkir og skipta þarf þungum byrðum milli ríkja og ríkjahópa. Í alþjóðakerfinu er ekki yfirvald og þar ræður eðlilega för lægsti samnefnari hagsmuna hinna fullvalda ríkja sem byggja kerfið. Engin hreyfing er uppi um að breyta þessum grundvallaratriðum. Ríkin í kerfinu ætla almennt ekki að gefa fullveldisréttinn eftir, hvorki í loftslagsmálum né öðrum.
Það er greinilegt að áhugi fjölmiðla heimsins á þessum fundum fer áfram mjög dvínandi, enda kemur aftur og aftur í ljós að þeir breyta engu sem máli skiptir til að minnka losun gróðurhúsalofttegunda og stöðva hlýnun jarðar.
Stærsta hindrunin í vegi loftslagsmálanna lýtur að kostnaði þeirra vegna – auðvitað – og hvernig megi skipta honum í bráð og lengd innan ríkja og milli þeirra. Þó virðist ekki unnt, þar á meðal ekki á Íslandi, að áætla nema að takmörkuðu leyti hvað aðgerðir til að minnka losun kosta, eða á hvaða bili kostnaður vegna yfirlýstra heildarmarkmiða geti legið. Er það ef til vill af því talið er að yrðu þau verðlögð mundi stuðningur við loftslagsaðgerðir minnka eða hverfa?
Hvað sem því líður þarf ekki annað en líta á orðalag í skýrslu milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna frá 2018 til að sjá að kostnaðurinn yrði feiknamikill. Þar sagði að markmið Parísarsamningsins um halda hlýnun við 1,5 gráður að hámarki á öldinni kallaði á “skjótar, víðtækar og fordæmalausar breytingar á öllum hliðum samfélagsins” (rapid, far-reaching and unprecedented changes in all aspects of society).
Einn lykilvandi loftslagsmála liggur í aðferðinni sem beitt er og felst að miklu leyti í því að minnka stórlega notkun jarðefnaeldsneytis. Aðferðin er svo augljóslega óhemju dýr fjárhagslega, félagslega og pólitískt fyrir flest ríki heims að augljósar hindranir stæðu í veginum og yrðu að líkindum óyfirstíganlegar ef látið væri á reyna. Fjölmennustu þróunarríkin stefna öll að því auðvitað að bæta lífskjör með aukinni notkun jarðefnaeldsneytis. Iðnríki hafa á undanförnum árum og áratugum náð umtalsverðum árangri. Þau eru samt mjög háð olíu og gasi og einnig kolum í sumum tilfellum og ekki líkur á að það breytist í grundvallaratriðum í fyrirsjáanlegri framtíð.
Ein leið er hugsanlega fær framhjá augljósum og skiljanlegum einkennum alþjóðakerfis fullvalda ríkja og eðli stjórnmálanna. Hún er að lögð verði sífellt meiri áhersla á að leita hagkvæmra leiða til að framleiða miklu meira af hreinni orku en tekist hefur hingað til. Þar beinast sjónir einkum að þróun kjarnorku – nánar tiltekið kjarnasamruna (e. nuclear fusion) – sem og að því hvernig megi nýta sólarorku í stórauknum mæli takist að leysa hvernig megi vinna, geyma og dreifa raforku sem frá ætti uppruna í sólarorku.
Einkum virðast vonir bundnar við að þannig framfarir verði varðandi kjarnasamruna að umbylti orkumálum á næstu áratugum þannig að losun koltvísýrings út í andrúmsloftið minnki verulega. Gróðurhúsaáhrifin dvíni í kjölfarið og að því marki með tímanum að takist að stöðva hlýnun Jarðar og snúa þróuninni við.
Loftslagsmálin eru hápólitísk sakir þess hvernig þau snerta valdapólitík í heiminum, daglegan starfa fólks og lífskjör þess, og vegna hins mikla kostnaðar sem fylgir því eins og áður sagði að minnka verulega notkun jarðefnaeldsneytis losun frá henni.
Takist hins vegar að umbreyta orkumálum heimsins þannig að hrein orka yrði almennt samkeppnisfær við jarðefnaeldsneyti, yrði kostnaður ekki lengur vandamál. Endanlega mundu sjálf alþjóðastjórnmálin ekki skipta máli vegna augljósra hvata sem allir fengju til að nýta hreinu orkuna. Það mundi á endanum aftengja loftslagsmálin frá bæði alþjóðastjórnmálum og innanlandsstjórnmálum. Loftslagsmálin og hlýnun jarðar yrðu miklu fremur tæknileg viðfangsefni en pólitísk
Áhrif þess á stefnu Íslands hve árangur er rýr í loftslagsmálum
Eins og fram hefur komið í fyrri greinum mínum er loftslagsstefnan eitt stærsta íslenska utanríkismálið. Það ræðst af þeim umtalsverða kostnaði sem þegar er lagður á samfélagið – einstaklinga og fyrirtæki – vegna aðgerða í loftslagsmálum og af því að hann á að óbreyttu eftir að aukast mjög mikið.
Enn er ósvarað þeirri grundvallarspurningu í íslenskri umræðu um loftslagsmál hvaða afleiðingar þetta hafi fyrir loftslagsstefnu Íslands og reyndar látið eins og þessi afgerandi munur skipti ekki máli.
Loftslagsstefnan snertir einnig samskipti við önnur ríki, en einkum náið samstarf Íslands við ESB á vettvangi EES samningsins um viðskipti með svonefndar loftslagsheimildir og sameiginlega markmið um minnkun á losun gróðurhúsalofttegunda.
Stefnt er að því að Ísland nái svonefndu kolefnishlutleysi árið 2040. Íslenskt samfélag er enn og áfram fjarri því eins og önnur ríki að nálgast þetta markmið.
Loftslagsstefna Íslands á að auki í sérstökum vanda. Hann stafar frá því grundvallaratriði að íslenskur orkubúskapur er allt annars eðlis og á allt öðrum stað en hjá næstum öllum öðrum ríkjum heims. Það ræðst af því að hlutfall endurnýjanlegrar orku á Íslandi er margfalt hærra en víðast annarsstaðar vegna stórfelldrar nýtingar endurnýjanlegrar orku sem hófst með hitaveituvæðingu upp úr 1930 og stórjókst um og eftir 1970 með enn aukinni beislun jarðhita og byggingu stórra vatnsaflsvirkjana. Hlutfall endunýjanlegrar orku er um 85 prósent á Íslandi, en rétt undir 20 prósentum hjá evrópsku samstarfsríkjunum og langt undir þeim mörkum víðast annarsstaðar.
Enn er ósvarað þeirri grundvallarspurningu í íslenskri umræðu um loftslagsmál hvaða afleiðingar þetta hafi fyrir loftslagsstefnu Íslands og reyndar látið eins og þessi afgerandi munur skipti ekki máli. Ísland eigi þrátt fyrir hann að hafa samskonar loftslagsstefnu og samstarfsríkin, sem búa við gerólíkar aðstæður í orkumálum. Slík stefna er greinilega í ósamræmi við grundvallarreglur í alþjóðasamvinnu og þjónar augljóslega ekki íslenskum hagsmunum.
Loftslagsstefna Íslands snýst um það eins og annarsstaðar að reyna að minnka verulega losun gróðurhúsalofttegunda. Það verður hins vegar miklu dýrara á Íslandi en annarsstaðar, einmitt vegna þess hve hlutfall endurnýjanlegrar orku er hátt hér á landi samanborið við önnur ríki. Það er þekkt að eftir því sem ríki ná lengra í að minnka losun þeim mun dýrara verður að halda áfram. Af þessum sökum eru möguleikar til að minnka losun á Íslandi enn frekar en orðið er færri en hjá öðrum ríkjum og mun dýrari en þar.
Að óbreyttu fælu aðgerðir til að reyna að ná kolefnishlutleysi í sér óbærilegan kostnað fyrir íslenskt samfélag og stefnan er dæmd til þess að lenda fyrr en síðar ógöngum eins og útskýrt hefur verið í fyrri greinum mínum. Um stefnuna getur ekki þegar fram í sækir orðið pólitískt samkomulag.
Jafnframt hef ég áður bent á leið út úr vandanum. Hún felst í því að taka upp loftslagsstefnu byggða á augljósri sérstöðu Íslands í orkumálum. Það var stefnan fram til 2009 með góðum árangri á vettvangi Kyoto-bókunarinnar um loftslagsmál þar sem svonefnt íslenskt ákvæði fékkst samþykkt. Það fól í sér alþjóðlega undanþágu fyrir stóriðju á Íslandi í aðallega í krafti þess að hún yrði knúin endurnýjanlegri orku.
Því er enn síður ástæða en áður til að hafa stefnu sem hefur þá undalegu afleiðingu að hátt hlutfall endurnýjanlegrar orku á landinu leiðir til þess að það taki á sig þyngri byrðar en önnur ríki.
Yrði sérstöðustefna tekin upp á ný fælist í henni í grundvallatriðum að beðið yrði með að reyna að ná yfirlýstum markmiðum um kolefnishlutleysi Íslands þangað til önnur ríki hefðu almennt nálgast svipað hlutfall endurnýjanlegrar orku og er á Íslandi.
Sá rýri árangur sem við blasir í loftslagsmálum eftir áratuga viðleitni á alþjóðavettvangi – nú síðast eftir fundinn í Azerbaijan – veldur því á hinn bóginn að önnur ríki eiga enn lengra en áður í land með að ná Íslandi í framleiðslu endurnýjanlegrar orku.
Því er enn síður ástæða en áður til að hafa stefnu sem hefur þá undalegu afleiðingu að hátt hlutfall endurnýjanlegrar orku á landinu leiðir til þess að það taki á sig þyngri byrðar en önnur ríki. Jafnframt gefst aukið svigrúm til að leggja aftur áherslu á sérstöðu landsins í orkumálum og afla því sjónarmiði stuðnings á alþjóðavettvangi að tillit sé tekið til hennar hvað Ísland varðar.
Höfundur er sérfræðingur um öryggis- og varnarmál og fyrrverandi sendiherra Íslands í Bandaríkjunum og Rússlandi.
*Greinin birtist fyrst á vefsíðu Alberts þar sem hann fjallar reglulega um alþjóðamál.