Erlent

Norski hryðju­verka­maðurinn telur brotið á sér í fangelsi

Kjartan Kjartansson skrifar
Fangavörður gengur út úr rými í deild Ringerike-fangelsisins þar sem Anders Behring Breivik er haldið. Náttúrumyndir voru settar upp á veggjum eftir að Breivik kvartaði fyrst undan aðbúnaði sínum.
Fangavörður gengur út úr rými í deild Ringerike-fangelsisins þar sem Anders Behring Breivik er haldið. Náttúrumyndir voru settar upp á veggjum eftir að Breivik kvartaði fyrst undan aðbúnaði sínum. Vísir/EPA

Lögmaður Anders Behring Breivik, norska hryðjuverkamannsins og fjöldamorðingjans, sakar norska ríkið um að brjóta á mannréttindum hans í fangelsinu þar sem hann dvelur. Verði stjórnvöld ekki við kröfum hans um úrbætur gæti hann skotið málinu til Mannréttindadómstóls Evrópu.

Borgarþingsáfrýjunardómstóllinn í Osló tók mál Breivik fyrir í dag.  Øystein Storrvik, lögmaður Breiviks, sagði þar að það jaðraði við að honum væri haldið í einangrun í Ringerike-fangelsinu þar sem hann hefur dvalið í á fjórtánda ár. 

Breivik, sem er nú 45 ára gamall, sé að „staðna“ vegna skorts á mannlegum samskiptum. Þær takmarkanir sem hann sætir í fangelsinu séu umfram það sem áhættumat hans gefi tilefni til.

Breivik hlaut 21 árs fangelsisdóm, sem hægt er að framlengja, fyrir að myrða 69 manns í sumarbúðum unglingahreyfingar Verkamannaflokksins á Útey og átta manns til viðbótar í Osló 22. júlí árið 2011.

Naggrís sem heldur Breivik félagsskap í Ringrike-fangelsinu.Vísir/EPA

Norska ríkisútvarpið segir að Breivik sé talinn of hættulegur til þess að umgangast samfanga sína en ennfremur er honum talinn stafa hætta af þeim. Ríkislögmaður sagði fyrir dómi að Breivik væri enn hættulegur og að hann sætti viðeigandi öryggisvistun í fangelsinu.

„Það er ekkert sem bendir til þess að Breivik sé ekki lengur ofbeldishneigður öfgahægrimaður,“ sagði Kristoffer Nerland, ríkislögmaður.

Storrvik segir aðbúnað Breivik brjóta gegn skuldbindingum Noregs gagnvart mannréttindasáttmála Evrópu. Hafni áfrýjunardómstóllinn kröfu hans, líkt og neðra dómstig gerði fyrr á þessu ári, gæti hann látið á hana reyna fyrir hæstarétti Noregs eða Mannréttindadómstóli Evrópu.


Tengdar fréttir

Reyndi að svipta sig lífi og vill losna úr einangrun

Norski fjöldamorðinginn og hryðjuverkamaðurinn Anders Behring Breivik vill losna úr einangrun. Hann hefur höfðað mál gegn norska ríkinu og segir aðstæður hans í fangelsi brjóta gegn mannréttindum en lögmaður hans sagði í gær að Breivik hefði reynt að svipta sig lífi í fangelsi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×