Meirihluti íbúa í Ölfusi eða sjötíu prósent hafnaði í íbúakosningu, að veita Heidelberg Matarials starfsleyfi í Þorlákshöfn til að reisa þar mölunarverksmiðju.
„Sannleikurinn oft fyrsta fórnarlambið“
Þorsteinn Víglundsson talsmaður Heidelberg segir að fyrirtækið hafi í ljósi umræðu um verkefnið áttað sig á að því yrði hafnað.
„Niðurstaðan er auðvitað vonbrigði. Við áttuðum okkur á í ljósi þeirrar heitu umræðu sem skapaðist um verkefnið á liðnum mánuðum að þetta yrði líklega niðurstaðan,“ segir Þorsteinn
Hann segir að umræðan um verkefnið hafi að hluta til verið ómálefnaleg.
„Þetta er ákveðin lífsreynsla að fara í gegnum í svona verkefni í sveitarfélagi. Umræður verða heitar og dregnar niður í pólitískar skotgrafir, þar verður sannleikurinn oft fyrsta fórnarlambið. Ýmislegt sem þar fór fram sem átti sér enga stoð í veruleikanum. Eitt af því var að starfsemin myndi hafa áhrif á fyrirhugað landeldi hjá First Water. Það kom hins vegar í ljós í athugun á því máli að starfsemin hefði engin áhrif á First Water,“ segir Þorsteinn.
Þorsteinn segir að kostnaður vegna verkefnisins sé þegar orðinn umtalsverður en muni nýtast í framhaldinu. Nú verði unnið að því að finna aðra staðsetningu fyrir mölunarverksmiðjuna hér á landi.
„Við höfum varið á annan milljarð í undirbúning verkefnisins í heild. Nú bara setjumst við aftur að teikniborðinu og skoðum hvaða möguleikar eru í stöðunni,“ segir Þorsteinn.
Fagnar framkvæmdinni og lýðræðislegri niðurstöðu
Elliði Vignisson bæjarstjóri Ölfuss er afar ánægður með framkvæmd íbúakosningarinnar í sveitarfélaginu um hvort þýska fyrirtækið fengi að reisa þar mölunarverksmiðju.
„Ég er virkilega ánægður með hvernig til tókst í þessari atkvæðagreiðslu. Umræðan var heilt yfir málefnaleg og íbúar tóku sína ákvörðun. Mitt hlutverk var að sjá til þess að kosningin færi fram í samræmi við lög og reglur þar að lútandi. Það tókst mjög vel. Við erum mjög góða þátttöku þannig að ég tel niðurstöðuna bæði lýðræðislega og trúverðuga og fagna því,“ segir Elliði.
Elliði segist ekki hafa gefið upp sína persónulega skoðun í málinu.
„Mín persónulega skoðun skiptir nákvæmlega engu. Bæði ég og fimm af sjö bæjarfulltrúum ákváðum að fela íbúum valdið í þessari ákvörðunartöku. Í því ljósi að bæjarfulltrúar voru að framselja valdið til íbúa að þá hefði verið mjög furðulegt að þeir hefðu síðan farið að berjast fyrir ákveðinni niðurstöðu. Það voru tilraunir gerðar til að setja málið í pólitíska farvegi,“ segir hann.
Elliði segir að Heidelberg hefði í upphafi skapað um 200 störf og áttatíu varanleg. Það sé þó nóg annað á döfinni í Ölfusi.
„Stærstu verkefnin hér núna eru stækkun hafnarinnar í Þorlákshöfn. Það er verið að undirbúa gagnaver. Það eru gríðarlegar framkvæmdir varðandi laxeldi í landi. Það er uppbygging í sjávarútvegi. Það er vaxandi ferðaþjónusta. Þannig að okkur er hvergi í kot vísað,“ segir Elliði.