Þetta sagði Mark Rutte, nýr framkvæmdastjóri NATO, í ræðu í Brussel í dag. Rússar væru þegar byrjaðir að undirbúa langvarandi átök gegn Úkraínu og NATO.
„Við erum ekki tilbúin fyrir það sem við munum standa frammi fyrir eftir fjögur til fimm ár.“
Meðal annars ræddi hann um fjölgun tölvuárása frá Rússlandi, banatilræða og svo kallaðan blandaðan hernað, sem ætlað væri að grafa undan samstöðu á Vesturlöndum.
Rutte er ekki sá fyrsti sem varar við hættunni af blönduðum hernaði Rússa. Það gerði Bruno Kahl, yfirmaður einnar af leyniþjónustum Þýskalands, einnig nýverið.
Sjá einnig: Segir skemmdarverk Rússa í Evrópu geta leitt til átaka
Rutte vísaði einnig til þess að ráðamenn í Kína virtust staðráðnir í að byggja áfram upp hersveitir sínar og horfðu girndaraugum til Taívan, samkvæmt frétt Sky News.
Tími væri kominn til að auka fjárveitingar til varnarmála og hergagnaframleiðslu. Fólk þyrfti að breyta hugarfari sínu. Öryggisástand heimsins hefði ekki verið eins slæmt á hans lífstíð.
Samhliða ræðu Rutte birti NATO meðfylgjandi myndband á samfélagsmiðlum Bandalagsins.
Innan NATO hefur verið mörkuð sú stefna að öll aðildarríki eigi að verja að minnsta kosti tveimur prósentum af vergri landsframleiðslu til varnarmála á komandi árum. Búist er við að 23 af 32 ríkjum NATO nái þessu markmiði á þessu ári.
Rutte sagði það ekki duga til.
Vísaði hann til að á tímum kalda stríðsins hefði þessi tala víðsvegar farið yfir þrjú prósent. Donald Trump, verðandi forseti Bandaríkjanna, hefur einnig kallað eftir því að bandamenn Bandaríkjanna verji þremur prósentum af landsframleiðslu til varnarmála.
Sjá einnig: „Dögun þriðju kjarnorkualdarinnar er í vændum“
Samkvæmt Reuters kallaði Rutte eftir því að ríkisstjórnir aðildarríkja hættu að reisa tálma í vegi hvors annars þegar kæmi að hergagnaframleiðslu og á öðrum sviðum. Þá hvatti hann forsvarsmenn fyrirtækja í hergagnaframleiðslu til að taka áhættu og sýna frumkvæði.