Lífið

Malcolm in the Middle snýr aftur á skjáinn

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Þau Malcom (fyrir miðju), Hal (t.v.) og Lois (t.h.) munu öll snúa aftur á skjáinn.
Þau Malcom (fyrir miðju), Hal (t.v.) og Lois (t.h.) munu öll snúa aftur á skjáinn. getty

Útlit er fyrir að gamanþáttaröðin vinsæla Malcolm in the Middle muni snúa aftur á skjáinn.

Þetta hafa forsvarsmenn Disney+ gefið út, en samkvæmt frétt Variety um málið er ráðgert að fjórir þættir verði framleiddir. Ekki liggur fyrir dagsetning frumsýningar, en þættirnir verða aðgengilegir á streymisveitunni Disney+.

Stórleikararnir Frankie Muniz, sem fer með hlutverk Malcolm, Bryan Cranston, sem leikur Hal og Jane Kaczmarek, sem leikur Lois, munu því allir snúa aftur. Á skjánum mun það gerast með þeim hætti að foreldrarnir Hal og Lois krefjast þess að Malcolm verði viðstaddur fjörtíu ára brúðkaupsafmæli þeirra, „með þeim afleiðingum að hann og dóttir hans flækjast í kaotískt fjölskyldumynstrið á ný,“ eins og segir í lýsingu á þáttunum væntanlegu. 

„Malcolm in the Middle eru tímamótaþættir sem fönguðu kjarna fjölskyldulífsins, húmorinn og umhyggjuna. Fólk á öllum aldri gat tengt við þættina og við erum svo ánægð að geta hleypt upprunalegu leikurunum aftur inn í líf okkar,“ er haft eftir Ayo Davis forseta streymisveitu Disney.

Þættirnir, 151 talsins, voru sýndir á árunum 2000-2006 og nutu mikilla vinsælda.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.