Erlent

Ísrael lokar sendi­ráði sínu á Ír­landi

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Gídeon Saar er utanríkisráðherra Ísraels.
Gídeon Saar er utanríkisráðherra Ísraels. EPA/Martin Divisek

Ísraelsk stjórnvöld hafa tilkynnt um að sendiráði Ísraels í Dyflinni á Írlandi verði lokað. Utanríkisráðuneytið segir það helst koma til vegna „öfgafullrar“ og „andsemitískrar“ stefnu írskra stjórnvalda í garð Ísraels.

Samband Írlands og Ísraels hefur stirfnað talsvert og þá sérstaklega í kjölfar þess að Írar lýstu yfir stuðningi sínum á mál fyrir alþjóðadómstólnum þar sem Ísraelar eru sakaðir um þjóðarmorð á Gasasvæðinu. Ísraelar hafa þó ekki lokað sendiráðum sínum í öðrum ríkjum sem standa að málsókninni, líkt og Egyptalandi, Spáni og Mexíkó.

Sakar írsk stjórnvöld um gyðingahatur

Í fréttatilkynningu á vef utanríkisráðuneytisins eru helstu ástæður ákvörðunarinnar tíundaðar, þar ber á viðurkenningu Írlands á sjálfstæði palestínska ríkisins og svo stuðning þeirra við málsóknina í alþjóðadómstólnum.

Haft er einnig eftir Gídeon Saar utanríkisráðherra að Írland hafi farið yfir öll mörk í samskiptum sínum við Ísraela og að það stafi af gyðingahatri og tvöföldu siðferði.

„Ísrael mun fjárfesta í því að styrkja samband sitt við lönd um allan heim samkvæmt forgangsröðum sem tekur aðgerðir og orðræðu landanna í garð Ísraels með í reikninginn,“ er haft eftir honum en í tilkynningunni greinir hann einnig frá því að Ísrael hyggist opna sendiráð í Moldóvu.

„Það eru lönd sem hafa áhuga á því að styrkja samband sitt við Ísrael þar sem við erum ekki með ísraelskt sendiráð,“ segir hann.

Harmar ákvörðunina

Simon Harris, forsætisráðherra Írlands, hefur tjáð sig um ákvörðun Ísraela. Í færslu á samfélagsmiðlum segist hann harma hana.

„Ég harma innilega ákvörðun ríkisstjórn Netanjahús. Ég hafna algjörlega þeirri fullyrðingu að Írland sé andvígt Ísrael. Írland er hlynnt friði, mannréttindum og alþjóðalögum,“ segir hann.

„Írland vill tveggja ríkja lausn og að Ísrael og Palestína geti lifað í sátt og öryggi. Írland mun alltaf vera talsmaður mannréttinda og alþjóðalaga,“ segir Harris.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×