Skoðun

Lands­virkjun vill meiri orku (en ekki samt í orku­skipti)

Snæbjörn Guðmundsson skrifar

Orkuskipti, orkuskortur, rafeldsneyti, kolefnisspor, skerðingar, orkukrísa, raforkuverð, almannahagsmunir. Þau eru mörg hugtökin sem notuð eru í orkuumræðunni þessa dagana. Sum þeirra lýsa raunverulegum viðfangsefnum sem skipta okkur öll máli, til dæmis í tengslum við loftslagsvána. Önnur eru orðasalat sem er þeytt inn í umfjöllun orkugeirans án þess að nokkur viti raunverulega hvað þau eiga að merkja. Fyrir almenning eru mörkin þarna á milli óljós og hagsmunaaðilar nýta sér það til að rugla fólk í ríminu og þrýsta á um frekari virkjanaframkvæmdir – að það verði að virkja hvað sem tautar og raular.

Lesendur hafa eflaust margir velt því fyrir sér í hvað orka úr nýjum virkjunum eigi að fara, eða hvort það sé yfir höfuð nauðsynlegt að virkja meira. Svör Landsvirkjunar um málið eru afar loðin. Aðspurð í pósti á Instagram um hvert orka frá Búrfellslundi eigi að fara sagði forstöðumaður hjá Landsvirkjun: „Þessi orka fer inn á vinnslukerfið og í framhaldi af því til viðskiptavina Landsvirkjunar.“ Í framhaldi sagði hún: „Við þurfum meiri orku til að mæta þörfum samfélagsins vegna þess að við erum að fara í mörg mjög áhugaverð verkefni á næstunni. Við Íslendingar erum að fara í orkuskipti og það þarf meiri orku til að mæta þeim. Og það er mjög margt í gangi.“

Er þetta ásættanleg upplýsingagjöf stærsta orkufyrirtækis landsins til almennings um nýtingu náttúruauðlinda þjóðarinnar?

Hvammsvirkjun og Búrfellslundur

Nú stefnir Landsvirkjun að því að reisa tvö ný orkuver á næstu árum, Hvammsvirkjun (95 MW) og Búrfellslund (120 MW), en á teikniborðinu eru fjölmargar aðrar virkjanir. Mikill styr hefur staðið um þessar tvær virkjanir. Önnur mun vega að einum stærsta laxastofni við Norður-Atlantshafið, og hin mun raska helgi hálendisins. Samanlagt eiga þær tvær að framleiða um 1200 GWst/ári, en til samanburðar nýta heimili landsins samanlagt um 900 GWst/ári. Hvert á orkan úr þessum nýju virkjunum að rata? Fer e-ð af henni í orkuskipti? Ef svo er, hve mikið?

Landsvirkjun hefur í mörg ár talað fjálglega um orkuskipti og almannahagsmuni, nú síðast í greininni Orku­skipti fyrir betri heim þann 14. desember síðastliðinn. Athygli vekur að hvergi í þeirri grein segir beinum orðum að raforka næstu virkjana eigi að fara í orkuskipti.

Því miður er mjög örðugt að fá upplýsingar um raforkusölu Landsvirkjunar til stakra viðskiptavina en eftir fréttum á vefsíðu fyrirtækisins að dæma virðist lítil sem engin orka verða tiltæk frá nýju virkjununum í komandi orkuskipti. Það virðist nefnilega þegar verið búið að semja um sölu stærri hluta orkunnar til stórnotenda.

Almenningi til upplýsingar hefur greinarhöfundur tekið saman tilkynningar Landsvirkjunar um nýja raforkusamninga frá árunum 2021–2024. Þrátt fyrir að fyrirtækið hafi á þeim árum kvartað sáran undan erfiðum rekstri, orkuskorti og skerðingum sá það sér engu að síður fært að skrifa undir hvern stórnotendasamninginn á fætur öðrum. Fara hér saman hljóð og mynd?

Landsvirkjun selur til álvera, gagnavera og fiskeldisstöðva

Á fyrrnefndu árabil sendi Landsvirkjun út eftirfarandi tilkynningar um nýja raforkusölusamninga. Í sumum þeirra kemur stærð raforkusamninganna raunar ekki fram og því torvelt að fá skýra heildarmynd af sölu fyrirtækisins til viðkomandi aðila.

Júní 2021: Landsvirkjun og Verne Global undirrituðu nýjan samning, en ekki kemur fram hvort hann innifelur í sér aukna raforkusölu eða einungis endurnýjun fyrri samnings.

Júlí 2021: Nýr samningur Landsvirkjunar og atNorth um raforkusölu til gagnavera en hvergi í frétt Landsvirkjunar eða annars staðar á netinu kemur fram hve stór nýi raforkusölusamningurinn er í MW. Þó segir í fréttinni að Landsvirkjun hafi þegar fyrr á árinu 2021 skrifað undir annan samning um raforkusölu til atNorth („Fyrr á árinu var gengið frá öðrum slíkum samningi og er því um mikla aukningu í viðskiptum að ræða á stuttum tíma.“) en engar upplýsingar finnast um þann samning, hvorki á síðu Landsvirkjunar né annars staðar á netinu.

Júlí 2021: Landsvirkjun og Norðurál framlengdu fyrri samning upp á 161 MW og stækkuðu hann um 21 MW upp í alls 182 MW.

Desember 2022: Landsvirkjun og Landeldi í Þorlákshöfn (núna First Water) skrifuðu undir 20 MW raforkusamning fyrir landeldisstöð í Þorlákshöfn. Í ágúst 2024 sagði forstjóri First Water að aflþörfin færi upp í 50 MW ef Hvammsvirkjun yrði að veruleika. Það bendir til þess að minnst þriðjungur af uppsettu afli Hvammsvirkjunar (95 MW) sé þegar eyrnamerktur First Water.

Febrúar 2023: Yfirlýsing um að Landsvirkjun stefni að raforkusölu til GeoSalmo í Þorlákshöfn. Orka Náttúrunnar hefur frá því þessi yfirlýsing var undirritað samið um raforkusölu til GeoSalmo svo óvíst er hvort af raforkusölu Landsvirkjunar til GeoSalmo verði.

Júní 2023: Landsvirkjun og atNorth á Akureyri semja um raforkusölu upp á 10 MW.

Mars 2024: Landsvirkjun og Laxey í Vestmannaeyjum gera raforkusamning upp á 22 MW, sem eiga að koma frá Búrfellslundi og Hvammsvirkjun.

Samkvæmt ofangreindum fréttatilkynningum einum hefur Landsvirkjun á síðustu fjórum árum þegar samið um sölu upp á a.m.k. 20 MW til álvera, 70 MW í laxeldi, og 10 MW til gagnavera, alls 100 MW sem er meira en uppsett afl Hvammsvirkjunar. Sem fyrr segir ættu lesendur að hafa í huga að þetta eru aðeins þær afltölur sem Landsvirkjunar birtir sjálf en ekki er sagt frá raforkumagni allra samninganna svo hér er um lágmarkstölur að ræða. Raforkunotkun samkvæmt nýjum stórnotendasamningum Landsvirkjunar slagar því væntanlega hátt upp í samanlagða áætlaða raforkuframleiðslu Hvammsvirkjunar og Búrfellslundar.

Auk ofangreinds má benda á eftirfarandi tvær umfjallanir um stækkanir gagnaversfyrirtækja:

Í júní 2023 kom fram að Verne Global hyggist stækka gagnaver sitt í Reykjanesbæ og auka afkastagetu þess um 56 MW, úr 40 MW upp í 96 MW. Ekki kemur fram hvaðan sú orka eigi að koma en Landsvirkjun sér gagnaverinu fyrir raforku í dag.

Í nóvember 2024 birtist svo tilkynning á vefsíðu atNorth um stækkun gagnaveranna í Keflavík um 35 MW og á Akureyri um 16 MW, alls aukin raforkuþörf upp á 51 MW. Ekki kemur heldur fram hvaða fyrirtæki muni útvega orkuna sem til þarf en Landsvirkjun hefur hingað til útvegað atNorth orku í öll gagnaver fyrirtækisins.

Þessar tvær fréttatilkynningar um aukna orkuþörf gagnavera upp á 90 MW benda til ofurvaxtar í gagnaversiðnaðinum. Ekki er auðséð hvaðan þessi orka eigi að koma en ekki er fráleitt að ætla að raforka framleidd í Hvammsvirkjun og Búrfellslundi muni enda í gagnaverunum.

Almannahagsmunir?

Engir ofangreindra samninga Landsvirkjunar snúa að orkuskiptum í samfélaginu. Orð fulltrúa Landsvirkjunar um betri heim eru marklaus. Nýir stórir raforkusölusamningar fyrirtækisins síðustu árin snúa allir að aukinni notkun og hagsmunum orkufreks iðnaðar. Raforkuframleiðsla tveggja nýrra virkjana fyrirtækisins mun hverfa í gin stórnotenda samstundis og virkjanirnar verða ræstar. Auk nýju samninganna má benda á tröllvaxnar hugmyndir stjórnenda Landsvirkjunar um framleiðslu rafeldsneytis til útflutnings upp á þúsundir GWst/ári sem greinarhöfundur hefur áður fjallað um.

Eru þetta þeir almannahagsmunir sem stjórnendum Landsvirkjunar er tíðrætt um þegar réttlæta á nýjar virkjanaframkvæmdir á kostnað íslenskrar náttúru?

Höfundur er jarðfræðingur og formaður náttúruverndarsamtakanna Náttúrugriða.




Skoðun

Skoðun

Hin­segin réttindi til fram­tíðar

Bjarndís Helga Tómasdóttir,Kristmundur Pétursson,Vera Illugadóttir,Jóhannes Þór Skúlason,Hannes Sasi Pálsson,Hrönn Svansdóttir,Sveinn Kjartansson skrifar

Sjá meira


×