Handbolti

Grét þegar Þórir mætti í settið: „Besti þjálfari í heimi“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Nora Mørk fékk sín fyrstu tækifæri í norska landsliðinu undir stjórn Þóris Hergeirssonar og varð síðar lykilmaður í því.
Nora Mørk fékk sín fyrstu tækifæri í norska landsliðinu undir stjórn Þóris Hergeirssonar og varð síðar lykilmaður í því. getty/Alex Davidson

Tárin runnu niður kinnar Noru Mørk þegar Þórir Hergeirsson mætti í viðtal hjá Viaplay eftir sigur Noregs á Danmörku í úrslitaleik EM.

Þórir stýrði norska landsliðinu í síðasta sinn þegar það vann Danmörku, 31-24, í úrslitaleik Evrópumótsins í Vín í gær.

Þórir gerði Noreg að Ólympíumeisturum í sumar og tilkynnti svo að EM yrði hans síðasta mót með norska liðið. Þrátt fyrir talsverðar breytingar frá Ólympíuleikunum stóð Noregur uppi sem sigurvegari á EM.

Mørk gat til að mynda ekki spilað með norska liðinu á EM þar sem hún er barnshafandi. Hún var þó þátttakandi í mótinu, sem álitsgjafi á Viaplay. Mørk talaði afar fallega um Þóri eftir sigurinn á Dönum í gær.

„Ég er leið. Ég er hrærð. Þetta er endir á tímabili. Hann hefur haft ótrúlega mikið að segja við mig og allar hinar stelpurnar. Gull í dag; þetta hefði ekki getað verið betra. Hann er besti þjálfari í heimi,“ sagði Mørk.

Tilfinningarnar báru hana svo ofurliði þegar Þórir mætti í settið hjá Viaplay eftir leikinn.

„Ég er ótrúlega þakklát að hafa verið hluti af þessu. Þú hefur skipt öllu fyrir mig og ferilinn minn,“ sagði Mørk.

Þórir var reyndar ekkert alltof sáttur við að Mørk hafi tekið að sér hlutverk sérfræðings á EM, þar sem hún væri enn að spila.

Þórir stýrði norska liðinu á tuttugu stórmótum á fimmtán árum. Noregur vann til ellefu gullverðlauna á þeim. Silfurverðlaunin voru þrenn og bronsverðlaunin sömuleiðis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×