Enski boltinn

Úlfarnir búnir að finna manninn sem á að bjarga þeim

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Vítor Pereira er efstur á óskalista Wolves.
Vítor Pereira er efstur á óskalista Wolves. getty/Abdullah Ahmed

Enska úrvalsdeildarliðið Wolves hefur hafið viðræður við Portúgalann Vítor Pereira, knattspyrnustjóra Al-Shabab í Sádi-Arabíu.

Wolves er í stjóraleit eftir að Gary O'Neil var sagt upp eftir tapið fyrir nýliðum Ipswich Town, 1-2, í ensku úrvalsdeildinni á laugardaginn.

Samkvæmt BBC vilja Úlfarnir fá Pereira til að taka við liðinu og það sem fyrst. Félagið er tilbúið að greiða Al-Shabab átta hundruð þúsund pund til að fá Pereira.

Hinn 56 ára Pereira hefur komið víða við á stjóraferlinum. Hann hefur þjálfað í heimalandinu, Sádi-Arabíu, Grikklandi, Tyrklandi, Þýskalandi, Kína og Brasilíu. Pereira gerði Porto tvívegis að portúgölskum meisturum og vann meistaratitilinn í Grikklandi og Kína með Olympiacos og Shanghai SIPG.

Wolves er í nítjánda og næstneðsta sæti ensku úrvalsdeildarinnar með níu stig, fjórum stigum frá öruggu sæti. Næsti leikur liðsins er gegn Leicester City á sunnudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×