Íslenski boltinn

Vinna að lagningu gervigrass hafin í Vestur­bæ

Valur Páll Eiríksson skrifar
Gröfumenn eru að störfum að Meistaravöllum.
Gröfumenn eru að störfum að Meistaravöllum. Aðsend

Komnar eru gröfur á KR-völl til að fjarlægja gras af aðalvelli félagsins. Leggja á gervigras á völlinn í staðinn.

Fyrsta skóflustunga að nýju yfirborði var tekin í síðustu viku af Páli Kristjánssyni, formanni knattspyrnudeildar KR, og Þórhildir Garðarsdóttur, formanni félagsins. Gröfur mættu á svæðið í dag og vinna nú hafin við að fjarlægja grasflötinn.

KR mun því leika á gervigrasi næsta sumar í Bestu deild karla og Lengjudeild kvenna. Um er að ræða fyrsta áfanga af þónokkrum í uppbyggingu svæðisins en stefnt er að því að reisa íbúðir meðfram vellinum við Kaplaskjólsveg og byggja knatthús og tengibyggingu þar sem nú er grasvöllur hinu megin við völlinn.

Vinna mun standa yfir næstu mánuði og vonast til að vinnu verði lokið áður en Íslandsmótið hefst næsta vor.

Nýlega er lokið vinnu við að laga gervigrasvöllinn sem er fyrir á KR-svæðinu. Hann var lokaður um hríð þar sem galli var í grasinu sem lagt var á þann völl fyrir um tveimur árum. KR-ingar vonast eflaust til að betur takist til við lagningu grassins á aðalvöllinn í vetur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×