Fótbolti

Þor­steinn sá spaugi­legu hliðina á EM-drættinum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þorsteinn Hallórsson og íslensku landsliðsstelpurnar vita nú hverjum þau mæta á EM næsta sumar.
Þorsteinn Hallórsson og íslensku landsliðsstelpurnar vita nú hverjum þau mæta á EM næsta sumar. Vísir/Vilhelm/Hulda Margrét

Þorsteinn Halldórsson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, var út í Sviss þegar dregið var í riðla á EM. Íslenska liðið verður í riðli með heimakonum í Sviss, Noregi og Finnlandi.

„Þetta eru allt sterk lið og allt erfiðir andstæðingar. Það var vitað fyrir fram að öll lið í þessu móti eru góð,“ sagði Þorsteinn Halldórsson í viðtali eftir dráttinn í Lausanne.

„Spaugilega við þetta er að við erum í riðli með bæði Sviss og Noregi í næsta Þjóðadeildarriðli sem hefst núna í febrúar. Við verðum búin að spila tvisvar við þær á næsta ári áður en við mætum þeim í lokakeppninni,“ sagði Þorsteinn. En hvað þýðir það?

„Þetta er svo nýskeð og þetta skiptir ekki endilega höfuðmáli. Þetta er önnur keppni og annað fyrirkomulag. Þarna er bara einn leikur en hitt er heima og heiman. Það er kannski allt öðruvísi að mæta þeim í því fyrirkomulagi heldur en í Þjóðardeildarfyrirkomulaginu,“ sagði Þorsteinn en hverjar eru væntingar íslenska liðsins á Evrópumótinu næsta sumar.

„Væntingarnar eru að vera í öðru af tveimur efstu sætunum. Það er alveg ljóst og það er markmiðið sem við munum setja okkur og það er markmiðið sem við ætlum okkur að náð,“ sagði Þorsteinn. Það má sjá viðtalið hér fyrir neðan.

Klippa: „Þetta eru allt sterk lið og allt erfiðir andstæðingar“

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×