Fótbolti

Sif gaf Fortuna síðustu treyju föður síns

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sif Atladóttir og Benno Beiroth með treyjurnar tvær. Það var einmitt Benno Beiroth sem fékk Atla til að koma til Fortuna Düsseldorf á sínum tíma.
Sif Atladóttir og Benno Beiroth með treyjurnar tvær. Það var einmitt Benno Beiroth sem fékk Atla til að koma til Fortuna Düsseldorf á sínum tíma. @f95

Sif Atladóttir færði Fortuna Düsseldorf rausnarlega gjöf í síðustu viku og félagið þakkar henni innilega fyrir á miðlum sínum.

Sif gaf þarna félaginu síðustu Fortuna Düsseldorf treyjuna sem faðir hennar, Atli Eðvaldsson, spilaði í. Á móti fékk hún að gjöf treyju með mynd af föður sínum en í þessari treyju hljóp Andreas Turnsek Reykjavíkurmaraþon í ágúst til heiðurs Atla.

Sif fæddist í Düsseldorf þar sem faðir hennar lék á árunum 1981 til 1985. Treyjan sem Sif gaf hans gamla félagi er árituð af Atla. Hann lést árið 2019 eftir erfið veikindi.

Sif er fyrrum landsliðskona, atvinnumaður og margfaldur Íslandsmeistari. Hún lék 90 A-landsleiki fyrir Íslands og alls hundrað leiki fyrir öll landslið.

Treyjan sem Sif fékk á móti er full af áritunum frá fyrrum liðsfélögum Atla.

Benno Beiroth, heiðursfélagi í Fortuna Düsseldorf, tók við treyjunni fyrir hönd félagsins.

Hann náði í Atla til Fortuna á sínum tíma en Atli kom þangað frá Borussia Dortmund.

Atli skoraði fimm mörk í lokaumferð þýsku deildarinnar 1983 og varð þá fyrsti erlendi leikmaðueinn til að skora fimmu í þýsku deildinni. Atli endaði það tímabil sem næstmarkahæsti leikmaður deildarinnar með 21 mark. Atli skoraði alls 38 mörk í 122 leikjum fyrir Fortuna Düsseldorf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×