Erlent

Út­sendarar SBU sagðir hafa ráðið her­foringjann af dögum

Samúel Karl Ólason skrifar
Rannsakendur að störfum þar sem sprengjan sprakk.
Rannsakendur að störfum þar sem sprengjan sprakk. AP

Úkraínskir embættismenn segja að útsendarar Öryggisstofnunar Úkraínu, sem er leyniþjónsta og í daglegu tali kallast SBU, hafi ráðið rússneskan herforingja af dögum í Mosvku í morgun. Herforinginn var í gær ákærður í Úkraínu fyrir notkun efnavopna.

Hann hafði áður verið beittur refsiaðgerðum af Bretum vegna notkunar efnavopna í Úkraínu.

Igor Kirillov, sem fór fyrir þeirri deild hersins sem sér um varnir gegn geislamengunar og efnahernaðar, og aðstoðarmaður hans dóu þegar sprengja sprakk fyrir utan fjölbýlishús í Moskvu í morgun.

Sprengjunni hafði verið komið fyrir í rafhlaupahjóli fyrir utan bygginguna og sprakk hún þegar Kirillov og aðstoðarmaðurinn komu út.

Sjá einnig: Rúss­neskur hers­höfðingi sprengdur í loft upp í Moskvu

Í samtali við Wall Street Journal segja úkraínskir embættismenn að um leynilega aðgerð SBU hafi verið að ræða. Aðrir heimildarmenn Reuters í Kænugarði segja það sama og þar á meðal heimildarmaður innan SBU.

Myndband af morðinu hefur verið birt á netinu. Sjá má það hér að neðan en vert er að vara við því að það getur vakið óhug.

Kirillov er æðsti foringinn í rússneska hernum sem Úkraínumenn ráða af dögum hingað til og þykir líklegt að morðið muni leiða til breytinga á öryggisgæslu annarra háttsettra herforingja. Frá því Rússar gerðu innrás í Úkraínu hafa nokkrir háttsettir menn innan rússneska hernum dáið í líklegum banatilræðum.

Þar á meðal eru háttsettur eldflaugavísindamaður, fyrrverandi þingmaður, skipstjóri kafbáts og hafa Úkraínumenn einnig verið sakaðir um að bera ábyrgð á dauða Daríu Dugina, dóttur Alexander Dugin, alræmds rússnesks þjóðernissinna.

TASS segir talið að sprengiefni sem samsvari um þrjú hundruð grömmum af TNT hafi verið notað í sprengjuna sem banaði herforingjanum.

RIA fréttaveitan, sem er í eigu rússneska ríkisins, segir morðið rannsakað sem hryðjuverk og að rannsakendur hafi fundið brot úr sprengjunni sem notuð var til að bana herforingjanum og aðstoðarmanni hans.

Rannsakendur eru sagðir leita vísbendinga í upptökum úr öryggismyndavélum á svæðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×