Enski boltinn

Segir að það sé erfiðara að vera þjálfari en for­sætis­ráð­herra

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ange Postecoglou tók við Tottenham fyrir síðasta tímabil.
Ange Postecoglou tók við Tottenham fyrir síðasta tímabil. getty/Michael Steele

Ange Postecoglou, knattspyrnustjóri Tottenham, segir ekki sé til erfiðara starf en að vera fótboltaþjálfari, ekki einu sinni að vera forsætisráðherra.

Spurs vann 0-5 sigur á Southampton á sunnudaginn. Þetta var fyrsti sigur liðsins í sex leikjum. Eftir viðureignina var Russell Martin rekinn sem stjóri Southampton. Nokkrum klukkutímum áður hafði Gary O'Neil verið látinn fara frá Wolves.

„Þetta er erfiðasta starf sem til er. Þú gætir nefnt stjórnmál en þetta er erfiðara en nokkurt annað starf,“ sagði Postecoglou.

„Líftíminn í þessu starfi þýðir að þú ferð inn í það og mjög fáir komast alveg heilir út úr því.“

Postecoglou var í kjölfarið spurður hvort hann væri í erfiðara starfi en forsætisráðherra Bretlands.

„Já, hversu oft eru kosningar hjá honum? Það eru kosningar hjá mér um hverja helgi. Þú er annað hvort kosinn eða ekki,“ sagði Postecoglou.

„Við höfum glatað allri virðingu því það er verið að orða aðra við störf meðan menn eru enn í þeim. Við sem samfélag erum svo fljót að kasta fólki í ruslið og halda áfram án þess að hugsa nokkuð um það. Ég veit ekki hvort það er góð leið.“

Tottenham tekur á móti Manchester United í átta liða úrslitum enska deildabikarsins í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×