Viðskipti innlent

EastJet flýgur til Basel og Lyon

Atli Ísleifsson skrifar
Flug til Basel hefst 1. apríl en flug til Lyon hefst 24. júní.
Flug til Basel hefst 1. apríl en flug til Lyon hefst 24. júní. Isavia

Breska flugfélagið easyJet bætti í dag við Basel Mulhouse í Sviss og Lyon í Frakklandi sem áfangastöðum frá Keflavíkurflugvelli á áætlun félagsins fyrir sumarið 2025. Sala miða er þegar hafin.

Í tilkynningu frá Isavia segir að flugi til Basel hefjist 1. apríl en flug til Lyon 24. júní. Flogið verði tvisvar í viku á báða þessa áfangastaði. EasyJet flaug áður frá Basel til KEF á árunum 2014 til 2019 en þetta er í fyrsta skipti sem easyJet flýgur milli KEF og Lyon.

„Þessi ákvörðun easyJet er mikið fagnaðarefni,“ segir Grétar Már Garðarsson, forstöðumaður flugfélaga og leiðaþróunar á Keflavíkurflugvelli. „Þetta er til marks um hve mikla trú félagið hefur á áfangastaðnum Íslandi. Við tökum fagnandi á móti farþegum easyJet frá Basel og Lyon og erum þess fullviss að íslenskt ferðafólk nýtir tækifærið og tekur flugið á þessa tvo áfangastaði félagsins.“

Auk Basel Mulhouse og Lyon býður easyJet upp á átta aðra áfangastaði þaðan sem flogið er til Keflavíkurflugvallar. Þeir eru Birmingham, Bristol og Paris Orly sem flogið er til á veturna og Edinborg, London Gatwick, London Luton, Manchester, og Milan þangað sem flogið er allt árið um kring.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×