Fótbolti

„Ég hætti í lands­liðinu þegar ég hætti í fót­bolta“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Birkir Bjarnason með fyrirliðabandið í einum af 113 A-landsleikjum sínum. 
Birkir Bjarnason með fyrirliðabandið í einum af 113 A-landsleikjum sínum.  VÍSIR/HULDA MARGRÉT

Birkir Bjarnason stefnir á það að koma liði sínu Brescia í umspil um laust sæti í efstu deild á Ítalíu.

Hann nýtur lífsins þar í landi og mun spila fótbolta eins lengi og skrokkurinn leyfir. Brescia er um miðja deild í B-deildinni á Ítalíu. Birkir er 36 ára en telur sig enn eiga nóg eftir.

„Þetta er frábær klúbbur og sérstaklega sögulega séð. Ég hef það bara mjög fínt hérna,“ segir Birkir í Sportpakkanum á Stöð 2 í gærkvöldi.

„Hérna á Ítalíu er þetta stórt félag og hérna hafa menn á borð við Baggio og Pirlo spilað. Við eigum heima í efstu deild að mínu mati en þetta hefur verið upp og niður og í raun mest hefur liðið verið í seríu B. Okkar markmið eru að reyna koma okkur inn í úrslitakeppnina og reyna koma okkur upp.“

Hann segir að persónulega hafi honum gengið mjög vel.

Þjálfarinn velur alltaf liðið

„Það tók smá tíma fyrir mig að koma mér í gang á tímabilinu og var að glíma við smá meiðsli. En núna líður mér mjög vel og það er gaman að ganga vel.“

Birkir er landsleikjahæsti leikmaður Íslands í sögunni, hann hefur spilað 113 landsleikir og skorað í þeim fimmtán mörk. Hann hefur leikið í tvígang á stórmóti fyrir Íslands hönd. Birkir hefur ekki verið valinn í landsliðið í síðustu verkefni.

„Þjálfarinn velur alltaf landsliðið sitt en á tímapunkti í fyrra þegar ég var að spila flestalla leiki og að spila vel. Þá fannst mér ég eiga heima í landsliðinu. Ég horfi nú bara þannig á það að ég hætti í landsliðinu þegar ég hætti í fótbolta.“

Hér að neðan má sjá viðtalið við Birki í heild sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×