Í þessari kitlu sést Sandler snúa aftur í hlutverk golfarans ástsæla, Happy Gilmore, klæddur í hokký-treyju, Adidas-buxur og í stóra klossa. Hann tekur golfsveiflu með tilhlaupi eins og honum einum er lagið og fagnar á sinn einstaka hátt, með því hlaupa um á golfkylfunni líkt og hann sé á hestbaki.
Upprunalega myndin sem er frá 1996 fjallar um skapstóran og að því er virðist nokkuð vonlausan hokkíleikmann sem leggur skautana á hilluna vegna fjárhagsvandræða ömmu sinnar og færir sig yfir í golf með góðum árangri.
Nýja myndin mun hreinlega bera titilinn Happy Gilmore 2. Í kitlunni sést Julie Bowen snúa aftur í hlutverki sínu sem Virgina Venit, ástarviðfang aðalsöguhetjunnar. Og þá snýr Christopher McDonald aftur sem erkióvinur Gilmore, Shooter McGavin. Gilmore og McGavin sjást mætast í kirkjugarði við gröf sem er merkt „Peterson“, en gera má ráð fyrir því að þar liggi Derick „Chubbs“ Peterson þjálfari Gilmore, sem Carl heitinn Weathers lék.
Einnig sést glytta í leikstjóra fyrri myndarinnar, Dennis Dugan, en hann lék mótsstjóra golfmótsins sem myndin hverfist að miklu leyti um.
Þar að auki sést í stórstjörnur á borð við íþróttamanninn Travis Kelce og Bad Bunny. Þá er líka talið að rapparinn Eminem muni fara með hlutverk í myndinni, sem og leikararnir Margaret Qualley og Nick Swardson.
Ekki nóg með það heldur er búist við því að Ben Stiller muni snúa aftur, en hann lék hinn eftirminnilega Hal, ömurlegan starfsmann hjúkrunarheimilis aldraðra.