Erlent

Flutningur á rúss­nesku gasi um Úkraínu til Evrópu stöðvast að fullu

Gunnar Reynir Valþórsson og Atli Ísleifsson skrifa
Volódómír Selenskí Úkraínuforseti segir að um mikinn ósigur Vladimír Pútíns Rússlandsforseta sé að ræða.
Volódómír Selenskí Úkraínuforseti segir að um mikinn ósigur Vladimír Pútíns Rússlandsforseta sé að ræða. AP

Flutningur á rússnesku gasi í gegnum Úkraínu til Evrópu hefur nú loks stöðvast að fullu. Þrátt fyrir stríðið sem geisað hefur frá innrás Rússa í Úkraínu hafa gasflutningar haldið áfram vegna samnings sem undirritaður var árið 2019.

Guardian segir frá því að sá umræddur samningur hafi runnið út um áramótin og um leið og klukkan sló tólf skrúfuðu Úkraínumenn fyrir og flutningarnir stöðvuðust alfarið.

Forseti rússneska orkufyrirtækisins Gazprom sagði um sögulegan atburð að ræða og talar Volódómír Selenskí Úkraínuforseti um einn mesta ósigur Vladimír Pútíns Rússlandsforseta.

Helstu áhrifin koma hins vegar fram í Moldóvu, nánar tiltekið í héraðinu Transnistríu sem nýtur stuðnings Rússa, þar sem hundruð þúsunda íbúa landsins misstu alla orku á einu augabragði.

Selenskí Úkraínuforseti bendir á að þegar Pútín komst til valda fyrir rúmum 25 árum hafi Rússar dælt meira en 130 milljörðum rúmmetra af gasi til Evrópu. „Nú stendur flutningur á rússnesku gasi í núlli.“

Skiptar skoðanir í Evrópu

Robert Fico, forsætisráðherra Slóvakíu, hefur gagnrýnt ákvörðun Úkraínumanna, en hann hefur varað við yfirvofandi stöðvun gasflutninganna síðustu mánuði. 

„Að stöðva gasflutning um Úkraínu mun hafa mikil áhrif á okkur öll í Evrópusambandinu, en ekki þau í Rússlandi,“ segir Fico.

Radosław Sikorski, utanríkisráðherra Póllands, er hins vegar í hópi þeirra sem hefur fagnað ákvörðuninni og segir um „nýjan sigur“ Evrópu að ræða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×