Ágreiningur Fjólu Sigurðardóttur og Davíðs Goða Þorvarðarsonar við Eddu hefur áður komið fram. Fjóla steig fram á Twitter árið 2022 þegra henni ofbauð ummæli Eddu í viðtali í sjónvarpsþætti á Stöð 2 þess efnis að það væri ekki hægt að ætlast til þess að fólk ynni frítt.
„Mars 2021 var fyrsti Eigin konu þátturinn - blóð, sviti og tár voru sett í þessa vinnu, frá okkur öllum ásamt framleiðslustjóranum okkar - áskriftir og sponsar - við Davíð höfum ekki séð krónu fyrir okkar vinnu,“ sagði Fjóla.
Þau hafi beðið Eddu, sem hélt áfram framleiðslu þáttanna án þeirra um nokkurt skeið, að borga þau út. Hún hafi brugðist við með því að henda þeim út af Patreon-áskriftaraðgöngum þeirra og yfirgefa sameiginlegt spjall þeirra.
„Það er enginn ágreiningur um það að Fjóla og Davíð Goði eiga inni peninga hjá mér og það hefur aldrei staðið annað til að en að það verði gert upp. Hins vegar hafa þau hvorugt verið í sambandi við mig varðandi það uppgjör og því finnst mér þessar árásir á Twitter einkennilegar,“ sagði Edda við DV um deilurnar árið 2022.
Davíð skaut á Eddu í færslu á Twitter og vísaði til umræðu í Eigin konum um andlegt ofbeldi.
„Umræðan um andlegt ofbeldi í íslenskum podköstum er að rifja upp margar minningar um síðasta ár. Og líka hversu ótrúlega sterk Fjóla Sigurðar er.“
Sigurður Kári Kristjánsson, lögmaður Fjólu og Davíðs, segir í samtali við RÚV, sem fyrst greindi frá, að reynt verði að komast að samkomulagi um greiðslur áður en málið fari lengra í dómskerfinu. Fyrirtaka í málinu er fyrirhugað fimmtudaginn 9. janúar.