Þetta sýnir ný rannsókn Náttúrustofu Vestfjarða á útbreiðslu laxalúsar á eldislaxi og á villtum laxi á Vestfjörðum. Rannsóknin hefur enn ekki verið birt en fjallað er um hana í Morgunblaðinu í dag og þar haft eftir Önju Katrin Nickel líffræðingi hjá stofnuninni að nauðsynlegt sé að herða eftirlit og reglur auk þess sem móta verði nýjar aðferðir til að takast á við lúsasmit í sjókvíaeldi.
Laxalús hefur verið vaxandi vandamál í laxeldi hér við land og til að mynda var því haldið fram í fyrrasumar að um milljón laxar hefðu drepist af hennar völdum, aðeins í Tálknafirði þar sem upp kom mikið smit.
Rannsóknin er sögð sýna það glöggt að þegar lúsin fjölgar sér í kvíunum dreifast lirfurnar á nálæg svæði og þannig smitast villtu laxarnir líka af þessu sníkjudýri sem nærist á blóði fiskanna og getur haft alvarlegar afleiðngar fyrir heilsu þeirra.