Erlent

Svíar séu hvorki í stríði né búi þeir við frið

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Kristersson segir Svía myndu taka þátt í auknu eftirliti með neðansjávarinnviðum.
Kristersson segir Svía myndu taka þátt í auknu eftirliti með neðansjávarinnviðum. AP/Sergei Grits

Svíþjóð er hvorki í stríði né býr það við frið, segir forsætisráðherrann Ulf Kristersson. Hann greindi frá því um helgina að Svíar myndu taka þátt í hertu eftirliti Atlantshafsbandalagsins á Eystrasalti.

Svíþjóð mun leggja til allt að þrjú herskip og eina eftirlitsflugvél til að fylgjast með mikilvægum innviðum og „skuggaflota“ Rússa og freista þess að koma í veg fyrir frekari skemmdir.

Kristersson sagði á árlegu málþingi um öryggismál um helgina að það væri ekki hægt að útiloka að fjandsamlegar aðgerðir væru orsakavaldur skemmda á hinum ýmsu sæstrengjum síðustu misseri.

„Svíþjóð er ekki í stríði en það ríkir heldur ekki friður,“ sagði forsætisráðherrann.

„Sannur friður krefst frelsis og lausnar frá alvarlegum átökum milli ríkja. En við og nágrannar okkar sætum blönduðum árásum, ekki vélmanna og hermanna, heldur tölva, fjármuna, upplýsingaóreiðu og hættunni á skemmdarverkum.“

Hann sagði þá sem vildu frið þurfa að vera undirbúna fyrir átök.

Kristersson sagði rannsókn á mögulegum skemmdarverkum skipsins Eagle S á sæstrengjum milli Finnlands og Eistlands standa yfir. 

Svíar myndu ekki saka neinn um skemmdarverk án þess að hafa eitthvað fyrir sér. Hins vegar væru þeir ekki heldur nein kjánaprik og það væri ólíklegt að áhöfn á skipi myndi draga akkeri og 300 metra keðju yfir 100 kílómetra án þess að taka eftir því.

Ítarlega frétt um málið má finna hjá Guardian.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×