Í þriðja þætti heimildaþáttaraðarinnar Grindavíkur er meðal annars fjallað um geðheilsu Grindvíkinga, leikmanna körfuboltaliða félagsins og bæjarbúa.
Ólafur Ólafsson, fyrirliði Grindavíkur, segir að erlendu leikmenn liðsins hafi átt stóran þátt í því að liðið hélt sönsum á síðasta tímabili, þá sérstaklega Kane.
„Maður kom alveg með einhverjar hugsanir og var niðurlútur á æfingum en útlendingarnir og Valur [Orri Valsson] létu æfingarnar vera skemmtilegar. Þeir töluðu ekkert um þetta, voru ekkert: Hvernig ertu? DeAndre, eins og hann er, kjafturinn á honum stoppaði ekki allan tímann. Láta þennan og þennan heyra það. Þetta var ógeðslega gaman,“ sagði Ólafur.
Segja má að sigur Grindavíkur á þáverandi Íslandsmeisturum Tindastóls á Sauðárkróki hafi verið snúningspunktur á tímabilinu. Grindvíkingar sigruðu Stólana, 96-101, í framlengingu eftir að hafa komið til baka.
„Þarna fundum við bara: Þetta er alvöru, við erum komnir aftur. Líka algjört hrós á útlendingana okkar. Þá langaði þetta virkilega mikið og drógu vagninn aðeins af stað,“ sagði Jóhann Árni Ólafsson, aðstoðarþjálfari Grindavíkur.
Innslagið úr Grindavík má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.