Diallo bjargaði málunum fyrir United á Old Trafford

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Amad Diallo fagnar einu af þremur mörkum sínum fyrir Manchester United á móti Southampton í kvöld.
Amad Diallo fagnar einu af þremur mörkum sínum fyrir Manchester United á móti Southampton í kvöld. Getty/Carl Recine

Manchester United vann 3-1 endurkomusigur á Southampton í ensku úrvalsdeildinni í kvöld. Maður kvöldsins var maður að nafni Amad Diallo sem skoraði þrennu í lok leiksins.

United var marki undir þegar tíu mínútur voru til leiksloka en þá tók strákurinn sig til og breytti leiknum.

Amad Diallo jafnaði fyrst metin fyrir United þegar hann skoraði átta mínútum fyrir leikslok.

Hann kom liðinu yfir á 90. mínútu og innsiglaði þrennuna síðan á fjórðu mínútu í uppbótartíma.

Southampton komst yfir með sjálfsmarki Manuel Ugarte tveimur mínútum fyrir hálfleik.

Southampton var með forystuna í næstum því fjörutíu mínútur en þá tók Diallo til sinna ráða.

Diallo gerði mjög vel í fyrsta markinu þegar hann prjónaði sig i gegnum vörnina af harðfylgi.

Annað markið skoraði hann með skot á lofti eftir stoðsendingu frá Christian Eriksen en Daninn las vel hlaup Diallo inn í teiginn.

Þriðja markið skoraði hann síðan þegar hann nýtti sér varnarmistök, stal boltanum af varnarmanni og skoraði í tómt markið.

Með þessum sigri komst United upp í tólfta sæti deildarinnar en þetta var fyrsti deildarsigur liðsins liðið vann nágrannana í Manchester Cuty 15. desember.

Þessi úrslit voru aftur á móti áframhald á góðri frammistöðu liðsins í jafntefli við topplið Liverpool og í bikarsigri á Arsenal.

Kaoru Mitoma og Georginio Rutter tryggðu Brighton 2-0 útisigur á Ipswich í hinum leiknum í deildinni í kvöld en bæði mörkin komu í síðari hálfleik. Brighton komst upp í níunda sæti með sigrinum en Ipswich er í fallsæti.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira