Enski boltinn

Fyrr­verandi lands­liðs­maður Eng­lands mætir KSI í boxbardaga

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
KSI ögrar Wayne Bridge á bardagakvöldi í Manchester í gær.
KSI ögrar Wayne Bridge á bardagakvöldi í Manchester í gær. getty/Ben Roberts Photo

Wayne Bridge, sem lék 36 landsleiki fyrir England á sínum tíma, mætir YouTube-stjörnunni KSI í boxbardaga í lok mars.

Greint var frá fyrirhuguðum bardaga þeirra Bridges og KSI á bardagakvöldi í Manchester í gær. Þeir voru báðir á staðnum og KSI ögraði Bridge.

KSI, eða Olajide William Olatunji eins og hann heitir fullu nafni, hefur barist nokkrum sinnum, meðal annars við Tommy Fury 2023. Hann tapaði á stigum en bardaginn var ekki löglegur samkvæmt bresku hnefaleikasamtökunum.

Flestir bardagar KSI hafa verið áhugamannabardagar en ekki liggur fyrir hvaða samtök skipuleggja bardagann við Bridge sem fer fram 29. mars.

Brigde er ekki nýgræðingur í hnefaleikum því hann mætti sjónvarpsmanninum Spencer Matthews í góðgerðabardaga 2018.

Bridge, sem er 44 ára, lagði skóna á hilluna 2014. Hann er uppalinn hjá Southampton en var svo sex ár hjá Chelsea. Hann varð Englandsmeistari með liðinu 2005 og vann bikarkeppnina og deildabikarinn 2007.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×