Smáforriti fyrir hælisleitendur til að bóka tíma með innflytjendayfirvöldum við landamærin að Mexíkó var einnig „kippt úr sambandi“ og þá sagði forsetinn að um það bil þúsund manns sem hefðu verið skipaðir í ýmis hlutverk í stjórnartíð Joe Biden yrðu látnir fjúka á næstu dögum.
Trump undirritaði meðal annars tilskipanir um að segja Bandaríkin úr Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni og frá Parísarsáttmálanum um aðgerðir í loftslagsmálum. Þá fyrirskipaði hann einnig að Mexíkóflói yrði Ameríkuflói innan 30 daga og Mount Denali yrði Mount McKinley, eftir 25. forseta Bandaríkjanna.
Forsetinn undirritaði einnig fjölda tilskipana til að greiða fyrir aukinni framleiðslu jarðefnaeldsneyta. Hann fyrirskipaði einnig rannsókn á öllum viðskiptavenjum og mat á eftirfylgni Kína með viðskiptasamningi ríkjanna frá 2020 og viðskiptasamningi Bandaríkjanna, Kína og Kanada sem hann undirritaði sama ár.

Óvissa og ótti
Ljóst er að forsetatilskipanirnar sem Trump undirritaði í gær og þær aðgerðir sem hann hefur boðað til munu skapa óvissu og jafnvel ótta hjá stórum hópum fólks en hann lýsti meðal annars yfir neyðarástandi við landamærin að Mexíkó.
Yfirlýst neyðarástand og aðrar tilskipanir er varða málefni hælisleitenda og innflytjenda munu líklega gera það að verkum að óvissuástand skapast við landamærin, þar sem Bandaríkin munu tímabundið hætta að vinna úr málum umsækjenda.
Staða trans fólks er einnig mjög óviss eftir gærdaginn en Trump undirritaði tilskipun þar sem kveðið er á um að alríkið viðurkenni aðeins tvö kyn, karlkyn og kvenkyn, sem séu ákvörðuð við fæðingu.
Alríkisyfirvöldum er þannig gert að miða ávallt við „kyn“ en ekki „kynvitund“ og mun þetta einnig ná til persónuskilríkja á borð við vegabréf. Þá er kveðið á um að líffræðilegt kyn ráði því hvaða salerni eða búningsaðstaða sé notuð og í hvaða fangelsum fólk er vistað.
Forsetinn undirritaði einnig fjölda tilskipana er varða starfsmenn alríkisins en hann hefur meðal annars komið á ráðningabanni og fyrirskipað opinberum starfsmönnum að snúa aftur á vinnustöðvar sínar, í stað þess að vinna að hluta heima.
Á vef New York Times má finna samantekt um helstu tilskipanirnar sem forsetinn undirritaði í gær og hlekki á tilskipanirnar sjálfar.