Fótbolti

Dortmund rak þjálfarann sinn eftir tapið í gær

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nuri Sahin hefur stýrt liði Borussia Dortmund í síðasta skiptið. Lokaleikurinn var tap í Bologna í gær.
Nuri Sahin hefur stýrt liði Borussia Dortmund í síðasta skiptið. Lokaleikurinn var tap í Bologna í gær. Getty/Alex Grimm

Nuri Sahin er hættur sem þjálfari þýska félagsins Borussia Dortmund en félagið lét hann fara eftir úrslitin í Meistaradeildinni í gær.

Dortmund tapaði þá 2-1 á útivelli á móti ítalska félaginu FC Bologna. Borussia Dortmund tilkynnti það á miðlum sínum í morgunn að samstarfinu við Sahin væri lokið.

„Við metum mikils starf Nuri Sahin og allt til loka vorum við að vonast til þess að hann gæti snúið þessu við. Eftir fjóra tapleiki í röð, aðeins einn sigur í síðustu níu leikjum og setu í tíunda sæti deildarinnar þá höfum við því miður misst trúna að við gætum náð okkar markmiðum undir fyrri stjórn,“ sagði Lars Ricken, íþróttastjóri félagsins, í frétt á heimasíðu félagsins.

„Þessi ákvörðun er sár fyrir mig persónulega en það var ekki hjá henni komust eftir tapið í Bologna,“ sagði Ricken.

„Því miður höfum við ekki náð markmiðum Borussia Dortmund til þessa á þessu tímabili. Ég óska þessu einstaka félagi alls hins besta,“ sagði Nuri Sahin í frétt á miðlum Dortmund.

Borussia Dortmund tilkynnti ekki strax hver muni stýra liðinu í næsta leik sem er á móti Werder Bremen á laugardaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×