Allir starfsmenn alríkisins, sem hafa unnið að málum er varða fjölbreytni, jafnrétti, inngildingu og aðgengi fara í leyfi fyrir lok dagsins í dag og fólkinu verður sagt upp um mánaðamót. Stofnunum hefur einnig verið gert að fara yfir vefsíður sínar og taka niður alla umfjöllun um aðgerðir eða úrræði í þágu þessara þátta.
„Ég held að það sé engin leið til að ímynda sér hvernig næstu fjögur ár verða. Svo virðist sem allt það sem við töldum ómögulegt sé að raungerast. Ég held að það sé full ástæða til að óttast. Við verðum að vera á varðbergi og því held ég að sé mjög mikilvægt að íslensk stjórnvöld fordæmi þessa tilskipun Trumps,“ segir Bjarndís Helga Tómasdóttir formaður Samtakanna 78.
Fjölmörg af fyrstu embættisverkum Trumps snúa að því að vinda ofan af því sem hann og hans stuðningsmenn kalla woke-væðingu. Nú viðurkennir alríkið til að mynda aðeins tvö líffræðileg kyn, karlkyn og kvenkyn, sem ákveðin eru við getnað og ýmsar reglur sem vernda trans fólk verið afturkallaðar - nú þarf trans kona til að mynda að fara í karlafangelsi.

„Við erum uggandi yfir stöðunni í Bandaríkjunum. Við erum uggandi fyrir hinsegin systkini okkar sem eru þar, fyrir trans fólki sem þar er. Það er lítið annað hægt að segja en þetta er hræðilegt,“ segir Bjarndís.
Þetta hefur jafnframt áhrif á útgefin skilríki. Búið er að uppfæra heimasíðu innanríkisráðuneytisins og er nú aðeins hægt að velja um karl- og kvenkyn, ekki annað eða óskilgreint kyn.
„Trans fólk hættir ekki að vera til þó það komi tilskipun eins og þessi frá Trump. Þau áhrif sem þetta hefur hins vegar er að trans fólk er beinlínis í hættu.“