„Það gekk ágætlega, komin einhver skriða á þetta og við erum búin að sammælast um hvaða leiðir við ætlum að fara til að klára þetta,“ segir Bjarni Ingimundarson, formaður Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna.
Fundað var í dag, í fyrsta skipti síðan um miðjan desember, og er sá næsti á þriðjudag.
Ef samningar nást ekki hefst verkfall 10. febrúar.
Slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn eru skyldugir til að sinna neyðartilvikum á meðan verkfall stendur yfir en önnur verkefni verða látin sitja á hakanum. Yfirvinnubann er á meðal áætlaðra verkfallsaðgerða og ætla aðalstarfsmenn að skila inn boðtækjunum sínum. Boðtæki eru notuð til að kalla út auka mannskap sem er ekki á vakt í stærri verkefni.
Samkvæmt verkfallsáætlun stendur það yfir frá klukkan átta til fjögur þann 10. febrúar. Vikuna þar á eftir eru tveir verkfallsdagar, 17. og 21. febrúar. Í þriðju viku verkfallsins eru þrír verkfallsdagar, 24., 26, og 28. febrúar. Mánudaginn 3. mars hefst allsherjarverkfall ef samningar nást ekki fyrir þann dag.