Erlent

Trump ætlar að skatt­leggja Pútín svo hann hætti stríðs­rekstri í Úkraínu

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Trump segist ætla að þvinga Pútín til þess að "semja" um stríðið í Úkraínu. 
Trump segist ætla að þvinga Pútín til þess að "semja" um stríðið í Úkraínu.  (AP Photo/Ben Curtis

Donald Trump Bandaríkjaforseti, sem undanfarna daga hefur hótað því að beita refsitollum gegn Kínverjum, Mexíkóum og Kanadamönnum hefur nú snúið sér að Rússum.

Í færslu á Truth Social, samfélagsmiðli sínum, hótar hann Vladimír Pútín Rússlandsforseta auknum sköttum, tollum og frekari viðskiptaþvingunum, ef samningar nást ekki í Úkraínustríðinu innan tíðar. Trump segir að efnahagur Rússlands sé að hrynja og hvetur hann Pútín til þess að semja strax og stöðva stríðið sem Trump kallar fáránlegt.

Ef Pútín lætur sér ekki segjast, segir Trump, sér hann engan annan kost í stöðunni en að setja auka skatta, tolla og viðskiptahömlur á alla hluti sem Rússar flytja inn til Bandaríkjanna og fjölda annarra ríkja.

Í kosningabaráttunni hafði Trump fullyrt að hann gæti bundið enda á stríðið á einum sólarhring, án þess að fara nánar út í þá sálma. Nú virðist hann ætla að beita refsitollum og öðrum álögum til þess að fá Pútín til að stoppa.

Í umfjöllun Guardian um málið er þó bent á að viðskipti Rússa og Bandaríkjanna hafi dregist verulega saman, og víðtækar viðskiptaþvinganir og -bönn eru nú þegar í gildi. Því sé óljóst hversu fast slíkar þvinganir myndu bíta Pútín. Í fyrra fluttu Rússar vörur inn til Bandaríkjanna fyrir um 3,4 milljarða dollara. Árið 2022 var stóð sú tala í rúmum 15 milljörðum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×