Upp­gjörið: Njarð­vík - Höttur 110-101 | Grænir unnið fjóra í röð

Stefán Marteinn Ólafsson skrifar
Njarðvík hefur átt góðu gengi að fagna í Bónus-deildinni.
Njarðvík hefur átt góðu gengi að fagna í Bónus-deildinni. vísir/Diego

Njarðvík fékk Hött í heimsókn til sín í IceMar-höllina í kvöld þegar Bónus deild karla hélt áfram göngu sinni. Njarðvíkingar vonaðist til þess að halda áfram að setja pressu á toppliðin á meðan Höttur vonaðist til þess að geta spyrnt sér í átt að öruggu sæti.

Það var Njarðvík sem tók uppkastið en gestirnir frá Egilsstöðum áttu fyrsta stigið í kvöld en það kom af vítalínunni. Njarðvík tók fljótt völdin og voru að setja góð skot í byrjun á meðan það gekk öllu minna hjá gestunum í Hetti.

Evans Ganapamo var að hitta virkilega vel í fyrsta leikhluta hjá Njarðvík og setti þrjú þriggja stiga skot en hann var komin með fimmtán stig strax í fyrsta leikhluta. Njarðvíkingar leiddu sanngjarnt og sannfærandi 30-23 eftir fyrsta leikhluta.

Höttur mætti mun beittari út í annan leikhluta og náði að að loka vel á sóknaraðgerðir Njarðvíkur ásamt því að saxa á forskot heimamanna. Höttur var búið að ná að jafna leikinn þegar það var lítið eftir af leikhlutanum. Njarðvík vopnum sínum aftur og náði að enda leikhlutann vel og fóru með fjögurra stiga forskot inn í hálfleikinn 45-41.

Í þriðja leikhluta byrjaði Höttur mun betur og náðu að snúa leiknum sér í vil. Obie Trotter var að setja stór skot fyrir gestina og Höttur náði sex stiga forskoti og litu virkilega vel út.

Það var svo í seinni hluta leikhlutans þar sem Khalil Shabazz tók hreinlega yfir og hlóð í sýningu til þess að sækja leikinn aftur fyrir Njarðvikinga. Khalil Shabazz skoraði næstu 17 stig Njarðvíkur í röð og tryggði það að Njarðvíkingar fóru með yfirhöndina inn í fjórða leikhluta. Njarðvík var 76-72 yfir eftir þriðja leikhluta.

Það var ljóst að mikil barátta átti eftir að einkenna fjórða leikhlutann. Njarðvíkingar náðu fljótt yfirhöndinni í leikhlutanum sem þeir lögðu ekki af hendi. Það var hins vegar mikil barátta og leikmenn beggja liða byrjuðu að týnast útaf með fimmtu villuna. Njarðvíkingar reyndust á endaum sterkari og höfðu betur með níu stiga mun 110-101.

Atvik leiksins

Erfitt að nefna ekki þegar Khalil Shabazz setur Njarðvíkurliðið á herðar sér í þriðja leikhluta. Njarðvík þurfti eitthvað sérstakt og Khalil stökk til og rúmlega það.

Stjörnur og skúrkar

Khalil Shabazz var frábær fyrir Njarðvíkinga í kvöld. Steig upp þegar hans lið þurfti mest á því að halda. Skoraði 31 stig og var stigahæstur á vellinum. Veigar Páll Alexandersson var einnig mjög góður í liði heimamanna og var nálægt tvöfaldri tvennu en hann skoraði 25 stig og tók níu fráköst.

Hjá Hetti voru Obie Trotter og Justin Roberts atkvæðamestir. Justin Roberts var með 27 stig og Trotter 25.

Dómarinn

Lokin á leiknum lita þetta svolítið. Flæðið var á köflum fínt. Kom smá rispa undir lok leiks sem var svolítið loðin og nálægt því að leysast upp í vitleysu en heilt yfir ekkert sem hafði úrslita áhrif.

Stemingin og umgjörð

Umgjörðin í Njarðvík er til fyrirmyndar. Hefði viljað sjá fleiri í stúkunni í kvöld en fullt kredit og hrós til þeirra sem lögðu leið sína á völlinn í kvöld.

„Erfitt að lesa í hvað mátti gera og hvað ekki“

Ósáttur eins og svo oft áður.vísir/Hulda Margrét

„Alltaf svekkjandi að tapa,“ sagði Viðar Örn Hafsteinsson fámáll eftir tap sinna manna í kvöld.

„Khalil var með svaka sýningu hérna í þriðja þegar við vorum komnir með ágætis tök á þessu fannst mér og snýr þessu við. Fáum á okkur of mikið af stigum þá og vorum of lengi að bregðast við. Í lokin þá kláruðu þeir þetta bara með góðum sóknum og svolítið af vítalínunni,“ sagði Viðar Örn.

Viðar Örn var ekkert alltof sáttur með varnarleik sinna manna og taldi hann hafa mátt fara betur í kvöld.

„Varnarleikurinn, það er of mikið að fá á sig 110 stig,“.

Í fjórða leikhluta var mikið flautað og menn fóru að týnast af velli með fimmtu villuna en Viðar Örn var þó ekkert á því að leikurinn hafi endilega verið „physical“ þrátt fyrir það.

„Nei, mér fannst erfitt að lesa í hvað mátti gera og hvað ekki. Það var svolítið erfitt að lesa í þetta,“.

Höttur eru í erfiðri stöðu í deildinni og sitja í fallsæti þegar það er farið að síga á seinni hluta móts.

„Það er bara næsti leikur og reyna að safna sigrum og fá góðar frammistöður. Það er margt gott hérna í dag og hlutir til þess að byggja á sem að við höfum verið að sýna upp á síðkastið. Þetta er svona og það vantar aðeins uppá ennþá. Það er bara að finna þessi auka prósent og ná að snúa þessu við. Það eru ennþá sjö leikir eftir og margt gott í okkar leik þannig ég hef fulla trú á því að við náum því,“ sagði Viðar Örn Hafsteinsson.


Tengdar fréttir

„Erum í þessu til þess að vinna“

Njarðvík tók á móti Hetti í IceMar-höllinni í kvöld þegar Bónus deild karla hélt áfram göngu sinni. Njarðvíkingar voru fyrir leikinn í kvöld búnir að vinna þrjá leiki í röð í deild og bættist sá fjórði við í kvöld þegar þeir sigruðu Hött 110-101.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira