Það samsvarar um 286 milljörðum króna.
Byggir þetta á samkomulagi ríkisstjórnar Danmerkur og ráðamanna í Færeyjum og Grænlandi.
Þrjú ný herskip verða smíðuð, samkvæmt yfirlýsingu á vef Varnarmálaráðuneytis Danmerkur, og eiga þau að leysa fjögur eldri skip af hólmi. Nýju skipin eiga að vera betur búin til að vakta norðurslóðir og eiga að geta borið þyrlur og dróna. Tveir öflugir og langdrægir eftirlitsdrónar verða keyptir og notaðir til vöktunar og á að efla eftirlit á norðurslóðum með gervihnöttum og skynjurum á jörðu niðri.
Samkomulegið mun einnig fela í sér aukna herþjálfun í Grænlandi sem á að vera ætlað að styrkja stöðu Grænlendinga varðandi það ef og þegar þeir hljóta sjálfstæði.
Danska ríkisútvarpið hefur eftir varnarmálaráðherra Danmerkur að þetta sé einungis fyrsta samkomulag og von sé á öðru samkomulagi fyrir sumarið.
Sendu Trump skilaboð
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur að undanförnu ítrekað talað um að Bandaríkin þurfi að „eignast“ Grænlands og hefur hann meðal annars sagt að Danir geti ekki varið eyjuna.
Sjá einnig: Segir alla íbúa Grænlands vilja undir Bandaríkin
Danmörk og Bandaríkin hafa lengi verið bandamenn í Atlantshafsbandalaginu og gerðu á árum áður varnarsáttmála sem gerði Bandaríkjamönnum kleift að vera með hernaðarviðveru á Grænlandi. Meðal annars í herstöðinni Thule.
Sjá einnig: Óttast áhrif orðræðu Trumps á fjárfesta
Haldinn var blaðamannafundur í Kaupmannahöfn um samkomulagið en þar sagði Vivian Motzfeldt, utanríkisráðherra Grænlands, að öryggisaðstæður á norðurslóðum hefðu breyst og taka þyrfti tillit til þess, samkvæmt frétt Sermitsiaq.
Hún sagði ný herskip mikilvæg og að þau myndu auka öryggi Grænlendinga til muna.
Í frétt DR segir að með tilkynningunni og blaðamannafundinum hafi Danir og Grænlendingar viljað senda út skilaboð til heimsins og sérstaklega Trumps að samband þar á milli sé gott.