Pawel greindi frá því í færslu á Facebook að á þingflokksfundi Viðreisnar hefði verið greint frá tilnefningu hans til setu í utanríkismálanefnd sem formaður nefndarinnar.
Þingflokkarnir hafa náð samkomulagi í meginatriðum um setu þingmanna í fastanefndunum á komandi Alþingi.
Samkvæmt heimildum Ríkisútvarpsins fær Flokkur fólksins þrjá formannsstóla, í fjárlaganefnd, atvinnuveganefnd og velferðarnefnd. Sigurjón Þórðarson verði formaður atvinnuveganefndar og Guðmundur Ingi Kristinsson formaður velferðarnefndar.
Áður hafði komið fram að Ragnar Þór Ingólfsson verði formaður fjárlaganefndar.
Auk utanríkisnefndarinnar fái Viðreisn formennsku í umhverfis- og samgöngunefnd, þar sem Guðbrandur Einarsson taki sæti formanns.
Samfylkingin fær formennsku í tveimur nefndum, allsherjar- og menntamálanefnd og efnahags- og viðskiptanefnd.
Víðir Reynisson kemur til með að stýra allsherjar- og menntamálefnd, og Arna Lára Jónsdóttir mun stýra efnahgas- og viðskiptanefnd.
Þá liggur ekki fyrir hver muni stýra stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, en venju samkvæmt verður það þingmaður úr stjórnarandstöðunni.