Þetta segir Helgi Héðinsson, framkvæmdastjóri Framsóknarflokksins, í samtali við fréttastofu. Hann segir að landsstjórn flokksins hafi fundað í gær og þar hafi þetta verið ákveðið.
Nokkurt ákall hefur verið um að flokksþingi Framsóknar verði flýtt og að kosið verði um forystu flokksins eftir þingkosningarnar þar sem Framsókn fékk 7,8 prósent atkvæða og þar sem þingmannafjöldinn fór úr þrettán í fimm.
Þannig sagði Lilja Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar, í Samtalinu í gær að hún vildi flýta flokksþingi. Þá sagðist hún ekki útiloka formannsframboð. Lilja missti þingsæti sitt í síðustu kosningum eftir að hafa setið á þingi frá árinu 2016.
Í landsstjórn flokksins eiga formenn sérsambanda og forysta flokksins sæti. Helgi segir að enn eigi eftir að ákveða endanlega dagsetningu miðstjórnarfundar en að ljóst sé að það verði einhverja helgina um miðjan eða upp úr miðjum mars.
Var frestað vegna kosninga
Upphaflega átti miðstjórn Framsóknarflokksins að koma saman til fundar í nóvember síðastliðnum en þeim fundi var frestað vegna alþingiskosninganna. Miðstjórn Framsóknar fer með umboð flokksins á milli flokksþinga og útfærir meginstefnu hans í landsmálum.
Flokksþing Framsóknar fór síðast fram í apríl 2024 þar sem Sigurður Ingi Jóhannsson var endurkjörinn formaður og Lilja varaformaður. Flokksþing flokksins eru alla jafna haldin á tveggja ára fresti og ætti næsta því að fara fram vorið 2026.