Forsetinn gekkst við því í gær að auknir tollar á vörur frá Mexíkó, Kanada og Kína myndu koma niður á Bandaríkjamönnum, en til skamms tíma. Bandaríkin hefðu hins vegar verið „rænd“ til lengri tíma og að fólk hefði skilning á því að grípa þyrfti til aðgerða.
Trump kvartaði yfir viðskiptahalla gagnvart Evrópu og sagði að Evrópuríkin ættu að flytja inn meira af bifreiðum og landbúnaðarvörum frá Bandaríkjunum. Mögulega yrði Bretland undantekning, þar sem hann ætti í góðu sambandi við Keir Starmer forsætisráðherra og þeir gætu ef til vill fundið einhverja lausn.
Ákvörðun Trump um að koma af stað alþjóðlegu tollastríði hefur grafið undan mörkuðum og kallað á aðgerðir af hálfu Mexíkó og Kanada. Stjórnvöld í umræddum ríkjum hafa í kjölfarið rætt að styrkja tengslin sín á milli.
Mexíkó, Kanada og Kína hafa öll ákveðið að höfða mál vegna ákvörðunarinnar, sem þau segja brjóta í bága við alþjóðlegar reglur og milliríkjasamninga.