Gísli Þorgeir Kristjánsson, leikmaður landsliðsins kom inn á það í viðtali við RÚV eftir þungt tap gegn Króötum í milliriðlum að starfsmaður HSÍ hefði spurt hann um heimferðarplön en möguleikar Íslands á HM voru þá ekki alveg úr sögunni og lokaleikur milliriðilsins eftir.
„Það var ákveðið högg að fá frá starfsmanni HSÍ fyrir leikinn, svona plan B, hvenær viltu fara til Magdeburgar? Þá fékk maður svona, vá, þetta gæti bara verið búið á morgun,“ sagði Gísli Þorgeir í samtali við RÚV en málið vakti mikla athygli og gagnrýni.
Umræðan og hálfgerð gagnrýni sem beindist gegn HSÍ í þessum efnum kom landsliðsþjálfaranum spánskt fyrir sjónir.
„Mér finnst umræðan skrýtin ef ég á að vera alveg hreinskilinn,“ svarar Snorri Steinn aðspurður um málið. „Þeir sem hafa verið á stórmótum vita hvernig þetta virkar. Þú hefur nokkra klukkutíma til að plana það að vera fara af hótelinu og ert ekki í neinni annarri aðstöðu en að fara gera plan A og B. Þetta hafði akkúrat engin áhrif á drengina, liðið eða undirbúninginn sem slíkan.
Mér finnst það bara vera ódýr þvæla. Það að við höfum byrjað leikinn illa á móti Argentínu hafði ekkert með einhver heimferðarplön að gera. Það var meira kannski bara sú staða sem var komin upp og þau þyngsli sem menn voru að glíma við andlega.“