Yfirlýsingin er afdráttarlaus. Ekki aðeins hafna þær því að vera í ofbeldissambandi, líkt og Bjarney Lárudóttir Bjarnadóttir framkvæmdastjóri Ungmennasambands Borgarfjarðar heldur fram, heldur segja þær í yfirlýsingunni að ummæli af því tagi geri lítið úr raunverulegu ofbeldi.
Bjarney vísaði meðal annars til þess að hann kallaði leikmenn sína aumingja og að hann skipti stundum í lið á æfingum þar sem ljótar stelpur væru í öðru liðinu en sætar í hinu.
„Ég get rétt ímyndað mér að vera 18-19 ára stelpa og vera sett í ljóta liðið,“ sagði Bjarney. Hún sagðist ekki skilja að leikmenn vildu spila fyrir hann.
„En ég veit líka að það getur verið erfitt að losa sig úr ofbeldissambandi þannig að ég vona að þessir einstaklingar séu með heilsteypt fólk í kringum sig sem getur hjálpað þeim að stíga út úr þessum óheilbrigðu aðstæðum.“
Hún gæti ekki þagað lengur.
„Ef sambærilegt atvik myndi gerast i Kringlunni eða annars staðar á förnum vegi þá yrði hringt á lögregluna og viðkomandi að öllum líkindum kærður.“
Brynjar Karl hefur á Facebook óskað eftir samtali við Bjarneyju Láru vegna málsins en Bjarney hefur ekki svarað því. Yfirlýsingin, en hana má sjá í heild sinni hér neðar, er til þess að gera stutt og undir hana skrifa allir leikmenn Aþenu.
Yfirlýsing frá leikmönnum Aþenu
„Að gefnu tilefni,
Við, leikmenn meistaraflokks Aþenu höfum ákveðið að tjá okkur um umræðu síðustu daga. Því hefur verið haldið fram að við séum beittar ofbeldi og orð eins og „ofbeldissamband“ notað til að lýsa okkar aðstæðum. Við viljum taka það skýrt fram að við erum ekki beittar ofbeldi. Okkur þykir slíkar yfirlýsingar vanvirðing við okkur sem fullorðna einstaklinga sem af fúsum og frjálsum vilja göngum í Aþenu og spilum fyrir okkar lið. Við erum fullfærar um að tjá tilfinningar okkar, mynda okkar eigin skoðanir, draga ályktanir og erum á allan hátt dómbærar á það sem gerist í kringum okkur. Að nota orðið ofbeldi í þessu samhengi er bæði villandi og skaðlegt. Það gerir einnig lítið úr alvarlegu eðli raunverulegs ofbeldis.
Engin sem hafa haldið þessari umræðu á lofti hafa komið að máli við okkur leikmennina. Það er óásættanlegt að einstaklingar sem hafa tjáð sig um málið opinberlega, t.d. Bjarney Láru Bjarnadóttir sem upphóf ofbeldisásakanirnar, hafi ekki haft beint samband við okkur heldur myndi skoðanir á okkur og geri okkur upp tilfinningar út frá myndbrotum úr viðtölum eða fyrirsögnum í fjölmiðlum.
Ásakanir sem þessar eru ekki bara vanvirðing gagnvart okkur leikmönnum meistaraflokks heldur hefur einnig áhrif á iðkendur í yngri flokkum félagsins. Leikmenn meistaraflokks þjálfa yngri flokka og hefur iðkendahópurinn stækkað gríðarlega og inniheldur stelpur sem hafa jafnvel ekki fengið tækifæri til íþróttaiðkunar áður.
Við skorum á öll sem hafa áhuga að hafa samband við okkur leikmennina svo við getum rætt málin. Þið eruð velkomin á æfingu hvenær sem er.
Yfirlýsing þessi er á engan hátt yfirlýsing félagsins, leikmenn fengu leyfi til að birta hana á Facebook síðu Aþenu.
Anna Margrét
Lucic Jónsdóttir
Ása Lind Wolfram
Barbara Zieniewska
Darina Andriivna Khomenska
Dzana Crnac
Elektra Mjöll Kubrzeniecka
Gréta Björg Melsted
Gwen Peters
Hanna Þráinsdóttir
Jada C Smith
Lynn Peters
Tanja Ósk Brynjarsdóttir
Teresa S Da Silva
V.K. Morrow“