Foreldrafélag Verzlunarskóla Íslands fjármagnaði bekkinn sem stendur nú fyrir utan einn af inngöngum skólans. Það var rétt fyrir klukkan hálf tíu í morgun sem nemendur streymdu út úr byggingunni klæddir bleikum fatnaði til að vera viðstaddir vígslu á bekknum, en Bryndís Klara var nemandi við skólann.
Áður en foreldrar Bryndísar og Vigdís litla systir hennar vígðu bekkinn blessaði séra Guðni Már Harðarson hann og deildi því með viðstöddum að Bryndís hafi verið ákveðin í því að fá sér húðflúr af Bangsímon á hendina þegar hún næði átján ára aldri.
„En foreldrar hennar sögðu: Ertu alveg viss? Þú verður að hugsa þetta vel og getur ekki gert þetta fyrr en þú verður átján af því að kannski finnst þér þetta ekkert flott þegar þú verður sjötug. En í gær reið móðirin á vaðið, og pabbinn ætlar að fylgja í kjölfarið, og fékk sér bangsímon tattú og er alveg sama hvernig það mun líta út þegar hún verður sjötug,“ sagði Guðni Már.

Árleg góðgerðarvika Verzlunarskólans hófst jafnframt í morgun þar sem nemendur og kennarar framkvæma áskoranir í þeim tilgangi að safna peningi. Í ár var ákveðið að góðgerðarvikan færi fram í kringum afmæli Bryndísar. Hófst hún í morgun og rennur allur sá peningur sem safnast í minningarsjóð Bryndísar Klöru.
„Það eru fullt af nemendum sem eru búnir að bjóðast til að gera eitthvað alveg klikkað. Til dæmis ætla strákar í skólanum að keyra hringinn í kringum landið á sólarhring,“ sagði Kristjana Mist Logadóttir, formaður góðgerðarfélags Verzló.

Fyrstu úthlutanir úr minningarsjóðnum fóru fram í gær og hlutu nokkrir styrki til að sinna ýmsum verkefnum sem snúa að því að halda kærleikanum á lofti. Meðal annars Embla og Kári sem ætla að nýta styrkinn til að vinna og birta myndbönd sem stuðla að kærleika á samfélagsmiðlum. Þau voru viðstödd vígsluna í morgun.

Góð leið til að minnast Bryndísar Klöru
„Þetta er mjög góð leið til að minnast hennar. Þetta er áberandi bekkur, fallega bleikur,“ sagði Embla Bachmann.
„Jú þetta er alveg eins og við höfðum ímyndað okkur. Þetta var falleg og góð stund og við fáum minnisvarða hingað í Verzló,“ tekur Kári Einarsson undir.