Magnús Þór Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands, hafði boðað komu sína í Pallborð á Vísi klukkan 14 í dag þar sem verkfall kennara er til umræðu. Hann afboðaði komu sína nú í hádeginu eftir að ríkissáttasemjari boðaði hann óvænt til fundar í karphúsinu.
Fulltrúar úr röðum Sambands íslenskra sveitarfélaga og kennara hafa skipst á skoðunum í fjölmiðlum undanfarna daga. Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjari sagðist í gær það ekki hjálpa til við að komast að lausn í deilunni.
Fjórtán leikskólar og sjö grunnskólar eru í verkfalli sem stendur en von er á niðurstöðu úr atkvæðagreiðslu framhaldsskólakennara vegna verkfallsaðgerða síðar í dag.
Kennaraverkfallið verður til umræðu í Pallborðinu á Vísi klukkan 14 í dag. Berghildur Erla Bernharðsdóttir fær til sín þau Ragnheiði Stephensen grunnskólakennara í Garðaskóla í Garðabæ, Kristófer Má Maronsson í málsóknarfélagi barna og formann fræðslunefndar í Skagafirði og Jón Pétur Zimsen fyrrverandi kennara og skólastjóra og þingmann Sjálfstæðisflokksins.