Íslenski boltinn

Fer í Fram eins og pabbi sinn forðum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hildur María Jónasdóttir verður í Frambúningnum í sumar.
Hildur María Jónasdóttir verður í Frambúningnum í sumar. Fram

Nýliðar Fram í Bestu deild kvenna eru að styrkja liðið sitt fyrir fyrsta tímabilið í efstu deild síðan 1988. Nýjasti leikmaðurinn kemur frá FH og er boðin velkomin í Dal draumanna á miðlum Fram.

Hildur María Jónasdóttir hefur gert tveggja ára samning við Fram eða út tímabilið 2026.

Hildur er 23 ára gömul og spilar sem miðjumaður. Hún er uppalin hjá Breiðabliki en hefur spilað með FH síðan 2021.

Siðasta sumar spilaði hún sem lánsmaður hjá HK í Lengjudeildinni.

„Hildur er vel spilandi djúpur miðjumaður, virkilega sterk í stuttu spili, ósérhlífin og öflug í návígjum. Fyrir svo utan að vera frábær karakter þá sakar ekki að hún kemur af góðu fólki, en faðir hennar, Jónas Grani Garðarsson, varð markakóngur í efstu deild með Fram árið 2007,“ segir á miðlum Framara.

Hildur er að spila í vetur með CSU Bakersfield í bandaríska háskólaboltanum en er að ljúka háskólanámi í Bandaríkjunum í vor.

Faðir hennar Jónas Grani Garðarsson var markahæsti leikmaður efstu deildar sumarið 2007 með 13 mörk í 18 leikjum en árið á undan skoraði hann 8 mörk í 18 leikjum með Fram í B-deildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×