Enski boltinn

Liverpool í tuttugasta og síðasta sæti í eyðslu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Liverpool er að reyna að semja við Trent Alexander-Arnold og tvo aðra lykilmenn þessa dagana en forráðamenn félagsins hafa greinilega lítið verið að pæla í því að kaupa leikmenn í síðustu tveimur gluggum.
Liverpool er að reyna að semja við Trent Alexander-Arnold og tvo aðra lykilmenn þessa dagana en forráðamenn félagsins hafa greinilega lítið verið að pæla í því að kaupa leikmenn í síðustu tveimur gluggum. Getty/Simon Stacpoole

Janúarglugginn í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta lokaðist í byrjun vikunnar og eitt af þeim liðum sem eyddu engu í honum var Liverpool. Þegar tveir síðustu gluggar eru teknir saman þá kemur athyglisverð staðreynd í ljós.

Liverpool er vissulega með sex stiga forystu á toppi ensku úrvalsdeildarinnar eins og staðan er í dag en liðið er aftur á móti á botninum á listanum yfir þau félög í ensku úrvalsdeildinni sem hafa eytt mestu í leikmenn í síðustu tveimur félagsskiptagluggum.

Brighton hefur eytt mestu eða 231,4 milljónum punda en bæði Manchester United (202,1 milljónir punda) og Manchester City (200,8 milljónir) eru líka yfir tvö hundruð milljónum í fjárfestingar í nýjum leikmönnum. Reyndar munar mjög litlu að Chelsea sé þar líka en félagið hefur eytt 196,7 milljónum punda í nýja leikmenn á þessum tíma.

Tvö hundruð milljónir punda eru meira en 35 milljarðar í íslenskum krónum.

Aston Villa (5. sæti), Tottenham (6. sæti) og Bournemouth (9. sæti) eru öll inn á topp tíu listanum í eyðslu ásamt Ipswich (7. sæti), West Ham (8. sæti) og Southampton (10. sæti).

Arsenal er síðan í ellefta sæti með eyðslu upp á 90,1 milljónir punda.

Þegar kemur að neðstu sætunum þá er Newcastle í þriðja neðsta sæti með 56,2 milljón punda eyðslu.

Bítlaborgin á aftur á móti liðin tvö sem hafa verið sparsömust á þessum tíma.

Everton hefur bara eytt 41,3 milljónum punda í nýja leikmenn en það er ekki nógu lítil eyðsla til að hrifsa neðsta sætið. Everton var vissulega í vandræðum vegna rekstrarreglna deildarinnar en það voru engin slík vandræði á nágrönnum þeirra.

Það breytir ekki því að eitt í neðsta sæti listans er Liverpool með eyðslu upp á aðeins 34,7 milljónir punda.

Hér fyrir neðan má síðan sjá allan topplistann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×