Þótt borgin hafi eignast landið fyrir tólf árum hafa ráðamenn flugvallarins lengi tregðast við að færa flugvallargirðinguna sem er forsenda þess að borgin geti byrjað að byggja. Á fundi Flugmálafélags Íslands í gær um framtíð flugvallarins sýndi Sigrún Björk Jakobsdóttir, framkvæmdastjóri Isavia innanlands, myndband af staðsetningu hins fyrirhugaða hverfis skammt frá brautamótum flugbrautanna.

„Þarna er verið að byggja bara á krossinum. Allir þessir íbúar, sem þarna munu búa, munu verða fyrir áhrifum frá báðum flugbrautum,“ sagði Sigrún Björk.
Hún sagði að girðing hverfisins yrði 167 metra frá miðlínu flugbrautar og taldi lækkun húsa eða breytta hönnun litlu breyta.

„Þetta er ekki að ganga. Hollenska geimferðastofnunin, sem rýndi þetta verkefni fyrir skýrsluna hjá Eyjólfi Árna (Rafnssyni – innskot Vísis), hún sagði að þetta yrði aldrei leyft í Hollandi. Það yrði aldrei leyft að staðsetja íbúðir - þarna eru fyrstukaupa íbúðir, þetta eru lítil börn, jafnvel öldrunarheimili - það yrði aldrei leyft að staðsetja þetta þarna.
Því meira sem ég skoða þetta verkefni, og því meira sem við getum sett þetta fram svona, þeim mun galnara er þetta. Ég verð bara að vera algerlega heiðarleg með það,“ sagði Sigrún Björk.

Fréttastofa spurði Einar Þorsteinsson borgarstjóra á Loftleiðahótelinu síðdegis í gær í ljósi orða Sigrúnar hvort borgin ætlaði að knýja þetta fram:
„Þetta er í deiliskipulagi. Það þarf ekki að koma á óvart að Sigrún Björk hafi skoðanir á því.“
-En mun borgin þrýsta á það að fá landið svo hægt sé að hefja þar uppbyggingu íbúðahverfis?

„Það liggur fyrir að borgin á þetta land og um það var gerður samningur. Þannig að það er í sjálfu sér bara formsatriði,“ svaraði Einar en tók fram að fyrst þyrfti að hreinsa jarðveg á svæðinu og að uppbygging væri ekki handan við hornið.

„Mér finnst mikilvægt að hraða allri húsnæðisuppbyggingu og þarna er deiliskipulagt hverfi sem myndi styðja við húsnæðisuppbygginguna.
En ég skal alveg viðurkenna það að ég hef smááhyggjur af stöðu flugvallarins,“ sagði borgarstjóri í viðtali sem tekið var í gær.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: